Jón Gunnarsson kallar eftir nýjum þingmeirihluta um orkumál

Jón Gunnarsson segir enga samstöðu ríkja í ríkisstjórn um orkumál.
Jón Gunnarsson segir enga samstöðu ríkja í ríkisstjórn um orkumál. mbl.is/Óttar

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins kallar eftir nýjum þingmeirihluta um orkumál vegna ummæla Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um raforkumál. Þetta kemur fram í frétt Viljans.

Eru þar rifjuð upp nýleg ummæli Katrínar þess efnis að hún óttist ekki raforkuskort en að skilgreina þurfi grunnorkuþörf. Stjórnvöld þurfi að taka afstöðu til rammaáætlunar og virkja þurfi meira fyrir orkuskiptin að virtum faglegum sjónarmiðum.

Jón segir af þessu tilefni að þingið þurfi að standa undir ábyrgð sinni og mynda nýjan meirihluta um að hefjast þegar handa.

„Tafapólitík“ ríkt of lengi

„Hér er komin upp sú ótrúlega staða, að það er neyðarástand og orkuskortur yfirvofandi og við þurfum alls ekki fleiri skýrslur eða hvítbækur til að leysa þann vanda, við höfum einmitt eytt allt of miklum tíma í slíkt í stað þess að hefjast handa um nauðsynlegar framkvæmdir,“ sagði Jón í samtali við Viljann. 

Segir hann „tafapólitík“ ríkt í virkjanamálum of lengi og hefjast verði strax handa við að nýta orkuauðlindir enn frekar. Miðflokkurinn, Viðreisn og hluti þingmanna Samfylkingar hafi talað fyrir því að hefjast handa og því liggi fyrir þingmeirihluti í málinu en ríkisstjórnin nái ekki saman í málinu. Því verði þingmenn að standa undir ábyrgð sinni og stíga næstu skref á nýju ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka