Agnar Már Másson
Um 75 jarðskjálftar hafa riðið yfir nálægt kvikuganginum undir Svartsengi á Reykjanesskaga frá miðnætti. Við eina mælingastöð á svæðinu hefur landris náð sömu hæð og fyrir gos.
Þetta segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. „Það er búið að vera tiltölulega rólegt í dag. Aðallega var rólegra í nótt en er aftur á svipuðu róli núna.“
Í gær riðu um 180 jarðskjálftar yfir við kvikuganginn, samkvæmt mælingum Veðurstofunnar frá miðnætti til miðnættis.
Land fór strax aftur að rísa við Svartsengi eftir að gos hófst mánudagskvöldið 18. desember. Hraðinn á landrisinu er meiri en fyrir gos. Aðspurð segir Sigríður að á einni mælingastöð hafi landris náð sömu hæð og fyrir eldgosið en annars staðar ekki.
„Þetta eru að nálgast svipaðar aðstæður fyrir þessa atburði. Það er ein stöð sem er komin í sömu hæð en aðrar sem eru ekki komnar í sömu stöðu,“ segir Sigríður.
„Það er samt ekki hægt að segja til um hvað það þýði þó það sé komið í sömu stöðu og fyrir gos.“
Landrisið þýðir að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og líklegt er að það leiði til annars kvikuhlaups og mögulega eldgoss.