Aldrei fleiri rán á Íslandi

Rán hafa aldrei verið fleiri en árið 2023 en þau …
Rán hafa aldrei verið fleiri en árið 2023 en þau voru um hundrað talsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aukinn vopnaburður, fleiri rán en nokkurn tímann áður, fordæmalaust magn af fíkniefnum og 7.000 einstaklingar handteknir er meðal þess sem kemur fram í bráðabirgðatölfræði lögreglunnar um afbrot á Íslandi árið 2023.

Þetta kemur fram í tilkynningu ríkislögreglustjóra.

Ekki er nefnt tölur um manndráp í tilkynningunni en eins og mbl.is greindi frá á dögunum þá voru manndráp á árinu talsvert yfir meðaltali, eða fimm talsins.

Flest brot eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu og þar eru flestir handteknir. Á árinu handtók lögregla um 7.000 einstaklinga og voru 3.700 þeirra vistaðir í fangageymslu, sumir oftar en einu sinni.

Lögregla vör við aukinn vopnaburð

Rán hafa aldrei verið fleiri en árið 2023 en þau voru um hundrað talsins. Kemur fram að lögregla hafi orðið vör við aukinn vopnaburð og voru vopnaútköll lögreglu og sérsveitar fleiri en áður.

Fram kemur að lögregla og tollur hafi aldrei áður lagt hald á meira magn af kókaíni og marijúana á íslenskri grundu en á þessu ári.

Á árinu barst lögreglu um 400 mál á hverjum sólarhring og fól um þriðjungur þeirra það í sér að lögregla þurfti að fara á vettvang. Er lögregla að jafnaði átta mínútur á vettvang en um 13 mínútur þegar verkefni krefjast ekki mesta forgangs.

„Aðstoðarbeiðnir til lögreglu er margskonar og tengjast ekki alltaf afbrotum heldur einnig veikindum, slysum eða öðru sem fólk þarf aðstoðar með,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynningum um kynferðisbrot fækkaði um 30%

Á árinu fækkaði tilkynningum til lögreglu vegna kynferðisbrota um 30% miðað við meðal fjölda tilkynninga þrjú ár á undan. Fjöldi heimilisofbeldisbrota er svipaður og fyrri ár en um 1.100 tilvik eru tilkynnt til lögreglu árlega.

„Árið 2023 var viðburðaríkt hjá lögreglu. Náttúran lét finna fyrir sér með vatnavöxtum, snjóflóðum og jarðhræringum víða um land. Einna viðamestar voru jarðhræringar á Reykjanesi sem síðar leiddu til rýmingar Grindavíkurbæjar þann 10. nóvember og eldgoss norðan við Grindavík 18. Desember,“ segir í tilkynningunni.

„Á árinu tókst lögregla jafnframt á við eitt stærsta löggæsluverkefni sem hún hefur sinnt er Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn hér á landi dagana 16. og 17. maí. Um gríðarlega viðamikið verkefni var að ræða sem nánast allir starfsmenn lögreglu komu að með einum eða öðrum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka