„Erfiðustu tímar sem ég hef upplifað“

Hjálmar Hallgrímsson er lögreglumaður og formaður bæjarráðs Grindavíkur.
Hjálmar Hallgrímsson er lögreglumaður og formaður bæjarráðs Grindavíkur. mbl.is/Kristófer Liljar

Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður og formaður bæjarráðs Grindavíkur, segir í facebook-færslu að hann muni ekki sakna þess árs sem er að líða undir lok. 

„Ég get ekki sagt að ég muni sakna þess árs sem er að líða eða sérstaklega ekki frá og með 10. nóvember síðastliðnum. Þetta eru búnir að vera einhverjir þeir erfiðustu tímar sem ég hef upplifað,“ skrifar hann í færslunni.

Hann kveðst þó bjartsýnn fyrir nýju ári enda geti það varla verið verra en árið sem nú fer að líða undir lok.

„Við þurfum alltaf að halda áfram og hugsa um allar yndislegu stundirnar sem við höfum átt og eigum eftir að upplifa. Við munum upplifa Grindavík eins og hún var með sína 3800 íbúa og allt lék í lyndi. Öflugt atvinnulíf, frábæra íþróttaaðstöðu, öflugt mannlíf og frábæra náttúru sem er að stríða okkur svolítið núna.

En munum það að við þurfum að lifa með þessari náttúru sem hefur þó verið okkur svo gjöful,“ segir hann í færslunni.

Þurfa að sýna samstöðu sem aldrei fyrr

Hann kveðst nokkuð viss um að það muni ekki gjósa í í sjálfum Grindavíkurbæ þó hætta geti myndast vegna hraunflæðis, skyldi byrja að gjósa sunnan vatnaskila. Þá sé hins vegar gott að vita að líklega hefjist vinna á varnargörðum 2. janúar til að verja Grindavík.

Hjálmar segir að Grindvíkingar þurfi nú að sýna samstöðu sem aldrei fyrr og hjálpast að við að reisa upp bæinn að nýju. Hvetur hann þá sem geta að hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda. Það sé samfélagsleg skylda.

„Einhverjir hafa misst húsin sín í altjóni, þá þarf að hjálpa þeim og að þeir fái réttláta meðferð til bóta. Einhverjir hafa misst vinnuna og þá þurfum við að hjálpa þeim. Einhverjir sitja uppi með skemmd hús en þau er hægt að laga og við þurfum að hjálpa þeim.

Einhverjir eru í þeirri stöðu að vera með heilar fasteignir en geta ekki hugsað sér að flytja aftur heim, við verðum að hjálpa þeim. Við erum með fólk sem er ekki komið í nógu gott húsnæði miðað við aðstæður og við verðum að hjálpa þeim,“ segir meðal annars í færslunni.

Lesa má færsluna í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert