Gamla árið verður kvatt með brennu víða á höfuðborgarsvæðinu, þó ekki í Kópavogi eða Hafnarfirði. Akureyringar halda upp á brennuna á nýjum stað á meðan tíu brennur munu loga í Reykjavík í kvöld.
Áramótabrenna verður ekki tendruð í Kópavogsdal í kvöld, segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ. Svæðið er ekki er lengur talið heppilegur staður fyrir brennu vegna öryggis- og umhverfissjónarmiða.
Þetta er annað árið í röð þar sem brenna er ekki haldin í Kópavogsdal. Hjálparsveit skáta stendur aftur á móti fyrir flugeldasýningu á gamlárskvöld klukkan níu.
Tvær áramótabrennur verða í Garðabæ, ein við Sjávargrund og önnur á Álftanesi, samkvæmt tilkynningu frá bænum.
Ásvellir í Hafnarfirði eru ekki lengur taldir vera heppilegur staður fyrir áramótabrennu en þar til í fyrra hafði áramótabrenna verið haldin þar árlega.
Seltjarnarnesbær stendur fyrir brennu á Valhúsahæð og í Mosfellsbæ verður áramótabrenna haldin neðan Holtahverfis við Leirvoginn. Þrettándabrenna verður haldin á sama stað.
Tíu brennur verða haldnar í Reykjavík í kvöld: við Ægisíðu, í Skerjafirði, við Suðurhlíðar, í Laugardal, við Geirsnef, við Jafnasel, við Rauðavatn, við Gufunes, við Kléberg, og við Úlfarsfell.
Vegna breyttra aðstæðna og framkvæmda á svæðinu við Réttarhvamm, þar sem áramótabrenna hefur verið undanfarin ár, var ákveðið að breyta um staðsetningu, að því er bæjaryfirvöld tilkynna.
Brennan verður á auðu og óbyggðu svæði á Jaðri nokkru sunnan við golfskálann.
Enn verður árleg flugeldasýning á gamlárskvöld á sínum stað skammt frá höfuðstöðvum Norðurorku.
Eins og mbl.is hefur greint frá tekur gul viðvörun gildi kl. 22 á Suðausturlandi.
Hinni árlegu áramótabrennu Björgunarsveitar Hornafjarðar verður fyrir vikið frestað til annars kvölds, að því er fram kemur á Facebook-síðu sveitarinnar.