Kveðst skulda betri útskýringar á afsögn sinni

Óli segir að vantrúin á skynsemi þess að halda ríkisstjórnarsamstarfinu …
Óli segir að vantrúin á skynsemi þess að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi fari vaxandi meðal Sjálfstæðismanna. mbl.is/Hallur Már

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði óvænt og útskýringalaust af sér þingflokksformennsku Sjálfstæðisflokksins í september.

Í hlaðvarpsþætti hans er nefnist Óli Björn - Alltaf til hægri kveðst hann skulda flokksmönnum betri útskýringar á því af hverju hann tók þá ákvörðun. Segir hann að vantrúin á skynsemi þess að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi fari vaxandi meðal Sjálfstæðismanna.

„Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ég skulda félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum um allt land betri skýringar á því hvers vegna ég taldi mér ekki kleift að sitja áfram sem formaður þingflokks. Og það mun ég gera á nýju ári með réttum og viðeigandi hætti,“ segir Óli Björn og heldur áfram:

„En eins og ég hélt fram í júlí [vísar í grein] þá hef ég, líkt og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, haldið tryggð við ríkisstjórnina þrátt fyrir efasemdir. Það hefur hins vegar oft reynt á enda afsalaði enginn okkar réttinum til að gagnrýna, berjast fyrir breytingum á stjórnarfrumvörpum, standa í vegi fyrir framgangi vondra mála eða vinna að framgangi hugsjóna.“

Vantrú á skynsemi samstarfsins eykst

Óli Björn ræðir síðan áfram um framgang hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og segir að ítrekað þurfi að endurmeta hvernig sé hægt að fá málum framgengið.

„Það er langt í frá sjálfgefið að mesti árangurinn náist með því að taka þátt í ríkisstjórn. Ef fá stefnumál ná fram að ganga með samstarfi í ríkisstjórn, ef stöðugt eru lagðir steinar í götu frelsis er illa hægt að réttlæta stuðning við ríkisstjórn. Á stundum er betra til lengri tíma litið að standa tímabundið utan ríkisstjórnar, huga að rótunum, ydda hugmyndafræðina, meitla og slípa nýja hugsun og stefnu í takt við breytta tíma.“

Óli Björn útskýrir svo mikilvægi þess að geta gert málamiðlanir á sama tíma og flokkurinn varðveitir þá hugsjón sem flokkurinn stendur fyrir.

„Það skal játað að vantrúin á skynsemi þess að halda samstarfinu áfram fer vaxandi innan Sjálfstæðisflokksins.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið hér en umræðan um afsögn hans sem þingflokksformaður hefst á tólftu mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert