„Langstærsta efnahagsmálið fyrir Íslendinga“

Katrín kveðst hafa verið skýr í sínum málflutningi um að …
Katrín kveðst hafa verið skýr í sínum málflutningi um að ríkisstjórnin muni gera það sem unnt er til þess að greiða fyrir því að samningar náist. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra dregur enga fjöður yfir það að sum mál sem hafa komið upp hafi reynst erfið fyrir ríkisstjórnarflokkana. Þó gengur hún bjartsýn inn í nýtt ár.

„Ég myndi segja að hér eftir sem hingað til er þessi hópur sem situr við ríkisstjórnarborðið samheldinn og hefur náð að leysa úr ágreiningsmálum – langflestum - með traust og heiðarleg samskipti að leiðarljósi,“ segir Katrín í samtali við mbl.is að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum, spurð um stöðu ríkisstjórnarinnar.

„Stóra málið sem blasir við okkur núna eru kjarasamningar og við erum að fá jákvæð teikn frá aðilum vinnumarkaðarins. Ég held að það sé alveg á hreinu að aðilar eru meðvitaðir um að það skipti gríðarlega miklu máli að það takist vel til, að við fáum hér langtímasamninga sem styðja við verðbólgumarkmið.“

Samfélagið bjartsýnt fyrir nýrri þjóðarsátt

Katrín kveðst hafa verið skýr í sínum málflutningi um að ríkisstjórnin muni gera það sem unnt er til þess að greiða fyrir því að samningar náist.

„Þar erum við auðvitað að horfa til húsnæðismálanna og stuðning við barnafjölskyldur. Þetta myndi ég telja vera langstærsta efnahagsmálið fyrir Íslendinga,“ segir hún.

Aðilar vinnumarkaðarins semja nú um nýja kjarasamninga þar sem markmiðið er ný þjóðarsátt í anda þjóðarsáttarinnar sem var gerð árið 1990. Katrín segir aðstæður að einhverju leyti ólíkar því sem þá var en hugnast samningar sem styðja við verðbólgumarkmið og þar sem horft er til lengri tíma.

„Þetta eru mjög jákvæð teikn fyrir íslenskt efnahagslíf. Allavega eins og ég les samfélagið þá er bjartsýni gagnvart þessu.“

Ríkisráðsfundur hófst á Bessastöðum klukkan 11 og lauk upp úr …
Ríkisráðsfundur hófst á Bessastöðum klukkan 11 og lauk upp úr klukkan 12. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert