Niðurstaða PISA-könnunarinnar áfall

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Arnþór

„Hugmyndafræði okkar um jöfn tækifæri fyrir alla stendur og fellur með menntakerfinu. Við deilum ekki um markmiðið. En við höfum vanrækt pólitíska umræðu sem skipulag skólastarfs byggist á,“ ritar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu og segir niðurstöður PISA-könnunarinnar vera áfall. 

„Í samtölum mínum við kennara og skólastjórnendur síðustu vikur hefur meðal annars verið bent á þörf á aðlögun aðalnámskrár með skýrum markmiðum, fleiri og sterkari námsgögn og verkefni þeim til stuðnings, aðgengi skóla að upplýsingum og markvissari mælingum. Skammtímahugsun og jafnvel þögn ríkjandi stjórnvalda fleytir okkur skammt í þessum efnum. Við verðum að þora að spyrja erfiðra spurninga til að efla kerfi sem þjónað getur betur markmiðum okkar í menntamálum,“ skrifar Þorgerður Katrín. 

Hún segir Viðreisn leggja áherslu á stórsókn í menntamálum þjóðarinnar og segir vægi þeirra á hinu pólitíska sviði ekki hafa verið nægilegt á síðustu árum. 

„Til þess þarf forystu og öflugt samtal innan menntakerfisins, þingsins og samfélagsins alls,“ skrifar Þorgerður Katrín. 

Áramótagrein Þorgerðar Katrínar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í gær, 30. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert