Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir ríkisstjórnina vænlega til árangurs en viðurkennir að staðan hjá ríkisstjórninni hafi á tímum verið snúin.
„Þetta hafa verið snúnir tímar en þessi dagur er fallegur og mér finnst áramót alltaf vera góður punktur til þess að rifja upp það sem er mikilvægast og þess vegna er ég bjartsýn.“
Þetta segir Svandís í samtali við mbl.is aðspurð um lágt fylgi ríkisstjórnarinnar og hvort að ríkisstjórnin gangi sem ein heild inn í nýtt ár.
Svandís sat ríkisráðsfund á Bessastöðum sem hófst klukkan 11 og lauk upp úr hádegi.
mbl.is náði tali af Svandísi, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að fundi loknum Þó þær væru allar sammála um að ríkisstjórnarsamstarfið hefði sínar áskoranir þá ríkti ákveðin bjartsýni yfir þeim öllum.
Spurð að því hvort hún telji að ríkisstjórnin haldi velli út kjörtímabilið segir Svandís:
„Það eru stór verkefni fram undan. Það eru kjarasamningar og það er þung barátta við verðbólgu og vexti. Það verður viðvarandi og þessi ríkisstjórn þannig samansett að það er vænlegt til að ná árangri í þeim efnum.“