Tímabil umbrota

Skemmdirnar sem urðu á bænum í skjálftunum 10. nóvember eru …
Skemmdirnar sem urðu á bænum í skjálftunum 10. nóvember eru gríðarlega umfangsmiklar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðskjálftahrina hafði varað í um tvær vikur þegar jörð tók að skjálfa svo verulega við Grindavík að íbúar gátu ekki sofið. Það var aðfaranótt 9. nóvember, skömmu eftir miðnætti, sem fyrsti skjálftinn reið yfir.

Fannst hann vel á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins og um tíu sekúndum eftir að hans varð vart tók síminn að hringja. Blaðamaður Morgunblaðsins sem búsettur er í Keflavík var á hinni línunni, en sú sem þetta skrifar gat ekki öðru svarað í símann en: „Þessi var stór er það ekki?“

Svo vildi til að kvöldvaktinni var í raun lokið og allir farnir heim, blaðið komið í prent og síðasta frétt vaktarinnar birt á mbl.is. Reyndist það svo sannarlega ekki vera síðasta fréttin sem undirrituð skrifaði þetta kvöld. Skömmu eftir fyrsta skjálftann kom annar, ekki mikið minni, og fleiri skjálftar fylgdu í kjölfarið.

Grindvíkingar fóru á rúntinn

Á milli símtala til Veðurstofunnar og fréttaskrifa náði ég tali af Grindvíkingum sem ekki gátu sofið. Brugðu margir á það ráð að fara út á rúntinn og var því óvenjumikil umferð á götum bæjarins þessa aðfaranótt fimmtudags. Hótel Bláa lónsins var rýmt, en ferðamenn sem höfðu lagst til svefns þar þessa nótt töldu sig ekki geta varið nóttinni þar. Voru þeir fluttir á höfuðborgarsvæðið, nokkuð fjærri upptökum skjálftanna.

Undir morgun hægðist þó á skjálftavirkninni og Grindvíkingar fengu örlítinn frið. Það var þó aðeins einum og hálfum sólarhring síðar að jarðskjálftavirknin tók sig upp að nýju og nú með alvarlegri afleiðingum en flestir gátu séð fyrir.

Sundhnúkagígaröðin fengið litla athygli

Skömmu fyrir hádegi föstudaginn 10. nóvember voru blaðamenn mbl.is að rýna í skjálftakort og sáu að virknin, sem áður hafði verið við fjallið Þorbjörn og við Bláa lónið, hafði fært sig. Nú voru að mælast skjálftar austan við Grindavíkurveginn, í Sundhnúkagígaröðinni sem á þessum tímapunkti hafði fengið litla athygli.

Við skrifuðum stutta frétt um þessa breytingu og veltum því ekki of mikið fyrir okkur. Virknin hafði áður hoppað vestur í Eldvörp og því kannski ekki óeðlilegt að hún skyldi hoppa austur líka.

Um kaffileytið var þó ljóst að þarna væri eitthvað stærra og meira á ferðinni. Síðdegis var staðan orðin þannig að Grindvíkingar gátu ekki verið heima hjá sér því skjálftarnir voru svo margir og þungir. Reyndust upptök þeirra líka vera beint undir bænum.

Greinina í heild sinni má lesa í Tímamótablaðið Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert