Stór verkefni bíða Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Alþingi á nýju ári og þá ekki síst útlendingamálin. Hún er með nýtt frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem og frumvarp um lokuð búsetuúrræði.
Blaðamaður mbl.is náði tali af Guðrúnu að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum sem lauk upp úr klukkan 12.
„Ég er að leggja til að við samræmum okkar löggjöf því sem er í nágrannalöndunum, norrænu ríkjunum, og ég er bara hæfilega bjartsýn á að það muni hljóta framgang,“ segir Guðrún spurð hvort hún telji að útlendingafrumvarpið nái í gegn á þinginu.
Að auki útlendingafrumvarpsins er hún með frumvarp um lokuð búsetuúrræði fyrir þá hælisleitendur sem hafa fengið endanlega synjun um alþjóðleg vernd. Segir hún að það muni einnig koma til kasta þingsins er það kemur saman aftur.
„Svo hef ég lagt fram breytingu á lögreglulögum og þar er ég að horfa til þess að við séum betur í stakk búin til að takast á við skipulagða brotastarfsemi,“ segir Guðrún og bætir við:
„Þetta eru gríðarlega stór mál en ég full bjartsýni á að ríkisstjórnin muni geta tekist á við þau, sem og Alþingi.“
Guðrún kveðst bjartsýn fyrir komandi ári og segir verkefnin ærin. Nú standa yfir kjaraviðræður þar sem markmið nýs bandalags stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins er að ná fram nýrri þjóðarsátt til að kveða niður verðbólgu og með því ná niður stýrivöxtum.
„Við ríkisstjórnin göngum bjartsýn inn í nýtt ár en samt sem áður meðvituð um það að verkefnin eru stór og verkefnin eru ærin.
Það er mjög mikilvægt að það sé stöðugleiki til að takast á við það og þá er ég fyrst og síðast að horfa á efnahagsmálin og það eru ákveðin teikn á lofti að við séum að fara sjá góðan árangur í þeim,“ segir Guðrún.