„Verkefnin eru stór“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stór verk­efni bíða Guðrún­ar Haf­steins­dótt­ur dóms­málaráðherra og Alþingi á nýju ári og þá ekki síst út­lend­inga­mál­in. Hún er með nýtt frum­varp um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um sem og frum­varp um lokuð bú­setu­úr­ræði.

Blaðamaður mbl.is náði tali af Guðrúnu að lokn­um rík­is­ráðsfundi á Bessa­stöðum sem lauk upp úr klukk­an 12.

„Ég er að leggja til að við sam­ræm­um okk­ar lög­gjöf því sem er í ná­granna­lönd­un­um, nor­rænu ríkj­un­um, og ég er bara hæfi­lega bjart­sýn á að það muni hljóta fram­gang,“ seg­ir Guðrún spurð hvort hún telji að út­lend­inga­frum­varpið nái í gegn á þing­inu.

Frum­varp um lokuð bú­setu­úr­ræði

Að auki út­lend­inga­frum­varps­ins er hún með frum­varp um lokuð bú­setu­úr­ræði fyr­ir þá hæl­is­leit­end­ur sem hafa fengið end­an­lega synj­un um alþjóðleg vernd. Seg­ir hún að það muni einnig koma til kasta þings­ins er það kem­ur sam­an aft­ur.

„Svo hef ég lagt fram breyt­ingu á lög­reglu­lög­um og þar er ég að horfa til þess að við séum bet­ur í stakk búin til að tak­ast á við skipu­lagða brot­a­starf­semi,“ seg­ir Guðrún og bæt­ir við:

„Þetta eru gríðarlega stór mál en ég full bjart­sýni á að rík­is­stjórn­in muni geta tek­ist á við þau, sem og Alþingi.“

Bjart­sýn fyr­ir kom­andi ári

Guðrún kveðst bjart­sýn fyr­ir kom­andi ári og seg­ir verk­efn­in ærin. Nú standa yfir kjaraviðræður þar sem mark­mið nýs banda­lags stétt­ar­fé­laga og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins er að ná fram nýrri þjóðarsátt til að kveða niður verðbólgu og með því ná niður stýri­vöxt­um.

„Við rík­is­stjórn­in göng­um bjart­sýn inn í nýtt ár en samt sem áður meðvituð um það að verk­efn­in eru stór og verk­efn­in eru ærin.

Það er mjög mik­il­vægt að það sé stöðug­leiki til að tak­ast á við það og þá er ég fyrst og síðast að horfa á efna­hags­mál­in og það eru ákveðin teikn á lofti að við séum að fara sjá góðan ár­ang­ur í þeim,“ seg­ir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert