Árið 2024 brosir við ferðaþyrstum Íslendingum þar sem frídagar hitta alltaf á virka daga, utan þeirra frídaga sem í eðli sínu falla alltaf á ákveðinn dag vikunnar.
Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, ber upp á miðvikudegi. Þjóðhátíðardagurinn 17. júní hittir á mánudag svo þá fá landsmenn lengri helgi.
Við vorgleðina bætast svo fimmtudagsfrídagarnir tveir, sumardagurinn fyrsti, 25. apríl, og uppstigningardagur, 9. maí. Þrjár vikur í röð verður því vinnuvikan aðeins fjórir dagar.
Páskarnir veita landsmönnum fimm daga frí eins og alltaf. Skírdagur er 28. mars og páskadagur því 31. mars.
Þá verður aðfangadagur jóla á þriðjudegi, jóladagur á miðvikudegi, annar í jólum á fimmtudegi og gamlársdagur á þriðjudegi. Nýársdagur er því á miðvikudegi.
Þingflokkur Pírata vakti athygli á því þarsíðustu jól að launþegar hafi þá aðeins fengið einn lögbundinn frídag alla jólahátíðina og vildi því að tapaðir frídagar færðust á næsta virka dag. Ljóst er að lítil þörf verður fyrir slíkar tilfæringar í ár.