Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands hefur lýst yfir hættustigi og að rýma þurfi reiti 4 og 6 á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu.
Ekki er talin vera hætta á öðrum stöðum eins og er, að því er segir í tilkynningu Veðurstofu Íslands.
Reitirnir sem um ræðir eru undir Strandartindi og ekki þarf stór flóð til þess að ógna þeirri byggð.
Vitað er um nokkur smærri snjóflóð sem hafa fallið í Norðfirði og eitt úr Skágili ofan við Neskaupstað sem stöðvaðist nokkuð utan við skógrækt. Líklega hafa fleiri flóð fallið í nótt og í morgun á Austfjörðum.
Talsvert hefur snjóað í fjöll en rignt á láglendi í hvassri austanátt á Austfjörðum. Áframhandandi austanátt er spáð með snjókomu til fjalla en rigningu á láglendi og neðri hluta hlíða.
„Því má búast við votum snjóflóðum og mögulega krapaflóði á láglendi þegar líður á kvöldið. Ekki er búist við hraðfara þurrum flóðum í þessu veðri með langt úthlaup eins og í snjóflóðahrinunni í mars á síðasta ári,“ segir í tilkynningu Veðurstofu.
Á morgun dregur úr úrkomu og ætti að draga úr snjóflóðahættu, en mögulega getur verið krapaflóðahætta áfram.
Í mars á síðasta ári voru rýmingar víða á Austfjörðum vegna snjóflóðahættu. Snjóflóð féllu á íbúðarhús í Neskaupstað.
Mikill viðbúnaður var vegna snjóflóðahættunnar og varðskipið Þór var nýtt í aðgerðirnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.