Kári Freyr Kristinsson
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist telja að ekkert verði því til fyrirstöðu að vinna geti hafist við uppbyggingu varnargarðs við Grindavík í dag. Undirbúningsvinna sé hafin, vélar og efni á staðnum. Því væri hægt að ræsa vélarnar og hefjast handa um hádegisbilið.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, kom að hönnun og staðsetningu varnargarðsins og segist telja líklegt að varnargarður muni verja bæinn.
„Við erum að byggja á því að varnargarðurinn geti allavega hjálpað til við varnir og muni duga til að beina hraunflæðinu frá bænum og út í sjó,“ segir Þorvaldur um varnargarðinn.
„Við verðum að vera heiðarleg þegar við tölum um þetta, við erum að byggja þessa varnargarða út frá þeirri þekkingu sem er til staðar, sem er mjög góð,“ segir Þorvaldur. Hann tekur þó fram að í dag sé lítil sem engin reynsla af því hvernig varnargarðar af þessum toga virka. Varnargarður umhverfis orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið er fullbúinn.
Lesa má frekar um málið í Morgunblaðinu í dag.