Afstaða Viðreisnar skýr

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur kallað eftir nýjum þingmeirihluta um …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur kallað eftir nýjum þingmeirihluta um orkumál. mbl.is/Sigurður Bogi

Þingflokksformaður Viðreisnar segir það á ábyrgð stjórnarflokkanna að bregðast við yfirvofandi raforkuskorti í landinu. Afstaða Viðreisnar hafi ávallt verið skýr í þessum málaflokki en núverandi ástand sé „afleiðing sex ára eyðimerkurgöngu ríkisstjórnar“ í orkumálum.

„Það er töluvert síðan við í Viðreisn fórum að benda á þetta vandamál, þennan yfirvofandi orkuskort og afleiðingar hans,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þarf meira til

Fyrir áramót kallaði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eftir nýjum þingmeirihluta um orkumál í viðtali við Viljann. Neyðarástand væri komið og orkuskortur yfirvofandi. 

„Ég myndi frekar orða það þannig: Eru stjórnarflokkarnir reiðubúnir að taka þátt í því að bæta úr þessari stöðu vegna þess að við í Viðreisn og aðrir stjórnarandstöðuflokkar höfum verið mjög skýr í okkar afstöðu, það þarf að gera eitthvað,“ segir Hanna Katrín, spurð hvort Viðreisn væri reiðubúin að taka þátt í myndun slíks meirihluta.

Hún segir það einnig hlutverk fulltrúa stjórnarflokkanna að svara hvort þeir ætli sér að bregðast við stöðunni sem upp sé komin.

„Þessir þrír flokkar fara með þingmeirihluta og þeir hafa nú ekki verið þekktir fyrir að brjóta hann upp, því miður, í hinum ýmsu málum, þannig ég veit ekki hvort þeir ætli að breyta þeirri hefð og átta sig á ábyrgð sinni.“

Engu að síður sé gleðilegt að sjá einstaka þingmenn vakna en það þurfi meira til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka