„Enginn var eða er ómissandi og ég hverf héðan sáttur “

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Alla mína forsetatíð hef ég fundið fyrir velvilja, stuðningi og hlýhug fólksins í landinu. Ef við horfum út í heim er ekki ekki sjálfgefið að kjörinn þjóðhöfðingi njóti slíks og því er ég innilega þakklátur. Að láta af embætti nú er í anda þeirra orða að hætta beri leik þá hæst fram fer. Ég er sáttur og hlakka til þess sem framtíðin ber í skauti sér,”  segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Sem kunnugt er tilkynnti Guðni í nýársávarpi sínu að hann gæfi ekki kost á sér til lengri setu á forsetastóli og því yfirgefur hann Bessastaði nú í sumar eftir átta ár þar.  Í kosningum sumarið 2016 var Guðni Th. Jóhannessonar kjörinn forseti Íslands með 39% greiddra atkvæða. Átta aðrir voru í framboði þá. Árið 2020 var Guðmundur Franklín Jónsson einnig í framboði en Guðni hlaut 92% greiddra atkvæða. Stuðningur landsmanna við forsetann hefur því verið skýr hvort sem litið er til kosningaúrslita, skoðanakannana eða umræðu úti í samfélaginu. Ákvörðun Guðna um láta af embætti nú kom því sumum á óvart. Þó ekki öllum.

Fann þá að ég vildi láta gott heita

„Já, þegar ég bauð mig fyrst fram til forseta árið 2016 sá ég fyrir mér og sagði að næði ég kjöri og endurkjöri hygðist ég gegna þessu embætti í tólf ár hið mesta. Tvö til þrjú kjörtímabil nefndi ég einnig. Þegar dró nærri áramótum nú íhugaði ég hvað ég vildi gera og ræddi mál við mína nánustu. Fann þá að ég vildi láta gott heita og hverfa héðan með ljúfa minningar og takast á við næsta kafla á minni ævi. Tók ákvörðun að vel athuguðu máli og finn fyrir sátt og gleði,” sagði Guðni í samtali við mbl.is í dag.

Guðni segist hafa þurft að læra margt nýtt þegar hann tók  við forsetaembættinu 1. ágúst 2016. Hann hafi vissulega notið þess að kunna nokkur skil á sögu embættisins, eftir að hafa sem sagnfræðingur kannað efnið og skrifað um. „En auðvitað var margt sem ég þurfti að tileinka mér og læra rétt eins og forverar mínir. En ég naut þá og hef ætíð notið öflugs samstarfsfólks. Tókst við hvert verkefnin hverju sinni og varð smám saman reynslu ríkari,” segir Guðni.

Forréttindi að þurfa ekki öryggisgæslu

„Mér þykir afar vænt um að taka á móti fólki hér á Bessastöðum, hitta landsmenn hér heima og einnig úti í heima, vera þar fulltrúi Íslands og íslensks samfélags. Sjálfur lít ég svo á að forsetaembættið sé þjónustustarf við þjóðina. Í mínum huga hafa öll verkefni jafn mikilvæg; hvort sem það er opinber heimsókn erlendis þjóðhöfðingja eða til dæmis afmæli grunnskóla úti á landi. Allt á skilið jafn mikla athygli forseta Íslands hverju sinni. Manni eykst líka kraftur og gleði við að finna kraftinn og fjölbreytnina samfélaginu þótt maður kynnist að sjálfsögðu einnig því sem á bjátar og bæta þarf. Ekki eru allt gleðistundir í lífinu,” segir Guðni og heldur áfram:

„Við Íslendingar njótum þess að búa í frjálsu og öruggu samfélagi. Sjálfur hef ég jafnan getað um frjálst höfuð strokið og verið meðal fólks án þess að neina öryggisgæslu þurfi. Þau forréttindi hafa aldrei verið í hættu. Ég vona að næsti þjóðhöfðingi og annað forystufólk þjóðarinnar geti líka notið þess.”

Guðni Th. Jóhannesson segist líta svo á að hefði hann valið að gefa kost á sér í forsetaembættið þriðja kjörtímabilið hefðu verið „þokkalegar líkur á því“ að hann næði endurkjöri. Hann sé þó sáttur við ákvörðun sína sem sé tekin þegar blikur séu á lofti á hinu pólitíska sviði. Sú hafi þó líka verið raunin þegar Ólafur Ragnar Grímsson lét af forsetaembætti sumarið 2016. Einnig þegar Kristján Eldjárn kynnti í byrjun árs að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi setu á forsetastóli.

„Í byrjun árs 1980 var mikil óvissa í stjórnmálum en Kristjáni, hinum frábæra forvera mínum, varð ekki haggað. Enginn var eða er ómissandi og ég hverf héðan sáttur á braut.”

Hefði stundum viljað eiga fleiri stundir með börnunum

Embættisskyldur forseta Íslands eru fjölþættar og mörgu þarf að sinna. Dagurinn er því oft langur en Guðni segir að þeim Elizu hafi þó gengið ágætlega að samræma störf og fjölskyldulíf. „Eins og mörg okkar sem erum í annasömum störfum hefði ég þó stundum viljað eiga fleiri stundir með börnunum. En ég kvarta ekki og er þakklátur Íslendingum að hafa leyft mér að halda fjölskyldunni vera í friði og utan sviðsljóssins,” segir Guðni sem segist þurfa að sinna mörgu á næstu dögum.

Á morgun verði Íslensku bjartsýnisverðlaunin veitt og valið á Íþróttamanni ársins er kunngert á fimmtudag. Þá eru á dagskrá ýmsir fundir forseta með ráðherrum, embættismönnum og fleirum. Leið margra liggur til Bessastaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert