Fimmtán fluttir á bráðamóttöku vegna hálkuslysa í dag

Mikil hálka er á landinu í dag, einnig á höfuðborgarsvæðinu.
Mikil hálka er á landinu í dag, einnig á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Að minnsta kosti fimmtán manns hafa þurft að leita á bráðamóttöku í dag eftir að hafa runnið til í hálku.

„Þetta er frekar mikið. Við sjáum þetta vel á tíðnitölunum. Á svona dögum eru umtalsvert margir sem þurfa að koma til okkar,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítala, í samtali við mbl.is.

Mikil hálka hefur verið víða á landinu í dag, einnig á höfuðborgarsvæðinu.

Flestir áverkar á höfði eða handleggjum

Hjalti bendir á að flestir sem leita á bráðamóttökuna vegna hálkuslysa komi þangað vegna höfuðhöggs eða áverka á handleggjum, sem hafa orðið þegar fólk reynir að bera fyrir sig hendurnar við fallið. Það eigi einnig við í dag.

Flest tilfellin í dag eru aftur á móti ekki talin alvarleg en nokkuð hafi þó verið um beinbrot sem geti leitt til langvarandi veikinda og varanlegra eftirkasta.

„En við sjáum því miður alvarleg höfuðhögg koma eftir svona. Það gerist einstaka sinnum, því miður,“ bætir hann við. Aðspurður kvaðst hann þó ekki getað tjáð sig um hvort slíkt hefði gerst í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka