Veðurstofan hefur ákveðið að aflýsa hættustigi vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði frá í gær. Aflýsingin tekur gildi klukkan 19.00 í dag.
Samtímis er rýmingum á Seyðisfirði aflétt og lokunum á Hafnargötu einnig. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.
Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Austurlandi er þó enn í gildi.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að austan veðrið sem hófst aðfaranótt mánudags sé nú gengið niður að mestu. Mikið af snjó hafi tekið upp í neðri hluta hlíða, einkum við ströndina. Búast megi við skúrum og hlýindum fram eftir kvöldi, en svo stytti upp í nótt.