„Sé ekki alveg hvar núningurinn er“

Ingibjörg kallar eftir skýrari svörum um hvað það er sem …
Ingibjörg kallar eftir skýrari svörum um hvað það er sem sjálfstæðisflokkurinn vill ná í gegn ríkisstjórnarsamstarfinu, sem ekki er að nást í gegn. Samsett mynd

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, kallar eftir skýrari svörum frá Sjálfstæðisflokknum, um hvað það er sem flokkurinn vill ná í gegn í ríkisstjórnarsamstarfinu þegar kemur að orkumálum, sem ekki er að nást í gegn nú þegar. Hún telur ríkisstjórnarflokkanna hafa viljann og getuna til þess að bregðast við, svo framarlega sem það liggur skýrt fyrir hvað það er sem þarf að gera. 

„Það er afar mikilvægt að það komi fram að frá því að við byrjuðum á þingi, þetta kjörtímabil, að þá hef ég ekki séð eitt mál, sem tengist orkumálum, sem ekki hefur verið samþykkt í ríkisstjórnarflokkunum þremur,“ segir Ingibjörg þegar blaðamaður leitar viðbragða við ákalli Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, um að mynda verði nýjan þingmeirihluti um orkumál. 

Kallar eftir skýrum áformum frá Sjálfstæðisflokknum

Máli sínu til stuðnings nefnir Ingibjörg að í upphafi kjörtímabilsins hafi þriðji áfangi rammaáætlunar, um vernd og nýtingu landsvæða, verið samþykktur í þinginu. Frumvarp hafi verið lagt fram varðandi stækkun virkjana á þegar röskuðum svæðum, sem samþykkt var af öllum stjórnarflokkunum.

Jafnframt lagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fram frumvarp varðandi flutningslínur, til að einfalda kerfið og koma ákvörðunum hraðar í gegn, sem einnig var samþykkt, segir Ingibjörg og ítrekar að þau mál sem komið hafa frá ríkisstjórninni, er varða orkumál, á yfirstandandi kjörtímabili hafi farið í gegn. 

Því kallar hún eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem fer með málaflokkinn, sé skýrari í sínum málflutningi varðandi hvað það er sem flokkurinn vill ná fram í orkumálum. Jafnframt að flokkurinn leggi það fram til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess. 

„Ég sé ekki alveg hvar núningurinn er, allavega á þessu kjörtímabili, ég get ekki talað fyrir fyrri kjörtímabil þar sem ég var ekki á þingi þá, en það sem hann [Jón] er að benda á núna eru ekki nýjar fréttir. Á þetta hefur lengi verið bent og við í framsókn höfum kallað eftir upplýsingum og áformum.“ 

Telur ríkisstjórnarflokkana hafa getu til að leysa orkumálin

Spurð hvort hún treysti ríkisstjórnarflokkunum til þess að leysa það neyðarástand sem nú er uppi er varðar yfirvofandi orkuskort svarar Ingibjörg:

„Við höfum verið að afgreiða þau mál sem hafa verið lögð fram hingað til, þannig að ég treysti okkur fullkomlega til þess að halda þeirri vegferð áfram. Við erum með vissa ferla í kringum þessi mál,“ segir hún og nefnir að vissulega þurfi að einfalda leyfisveitingakerfið, til að mynda þegar kemur að framkvæmdum bæði er varða virkjanir og eins lagningu dreifikerfisins. 

Hún segir að leita þurfi fjölbreyttra leiða til að bregðast við yfirvofandi orkuskorti og leggur áherslu á að ekki sé hægt að fara einhverja eina leið, það séu mörg verkefni sem þurfi að leysa. 

„Ég tel að við höfum viljann til þess og getuna, svo framarlega sem að það liggur fyrir hversu mikillar orku þurfi að afla og aðgerðaráætlun til að ná því fram. Það er kjarni málsins.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert