Svartsengi komið á „krítískan“ punkt

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að svæðið við Svartsengi sé komið á „krítískan“ punkt en það getur orðið einhver bið á að dragi til tíðinda.

Veðurstofa Íslands sendi frá sér tilkynningu um hádegisbilið þar sem fram kemur að dregið hafi úr hraðanum á landrisinu við Svartsegi en það er vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukist líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi.

„Það er bara svæðið við Svartsengi sem er komið á krítískan punkt en önnur ekki og við erum bara í biðstöðu eins og staðan lítur út núna,“ segir Ármann við mbl.is.

Byggist upp hægt og rólega

Ármann segir að kvikuþrýstingurinn byggist upp hægt og rólega sem muni enda með eldgosi eða kvikuhlaupi. Spurður hvort hann telji líklegra að atburðarásinni ljúki með eldgosi eða kvikuhlaupi segir Ármann:

„Það er ómögulegt að segja. Það fer eftir því hvað hversu mikill þrýstingur næst upp í geyminum sem er verið að hlaða í,“ segir Ármann.

Ármann telur að langlíklegast að það gjósi aftur í Sundhnúkagígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

„Úr því að gosið kom upp á þessum stað síðast þá tel ég líklegt að gosstaðurinn verði sá sami. Greiðasta leiðin er þar upp og það er ólíklegt að það komi upp á öðrum stað. Ég myndi halda að gosið yrði álíka því sem við sáum 18. desember. Kraftmikið gos í byrjun sem mun standa stutt yfir. Þar með held ég gos á þessum stað verði það síðasta í bili og þetta færist yfir í Eldvörpin.“

Ármann segist vera horfa til þess að á næstu tíu árum verði umbrot á Reykjanesskaganum en eldgosið sem hófst með krafti við Sundhnúkagíga þann 18. desember var það fjórða á Reykjanesskaganum á síðustu þremur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert