„Þá verður bara að boða til kosninga“

Jón vill nýjan þingmeirihluta um orkumál. Jóhann telur eðlilegra að …
Jón vill nýjan þingmeirihluta um orkumál. Jóhann telur eðlilegra að mynda nýja ríkisstjórn. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, telur nú þegar vera meirihluti innan þingsins sem sé reiðubúinn að liðka fyrir aukinni orkuöflun og að fleiri virkjanakostir fari í nýtingarflokk rammaáætlunar.

Hann telur aftur á móti skorta frumkvæði af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem fari bæði með orku- og umhverfismál. Í stað þess að mynda nýjan þingmeirihluta um raforkumál, eins og þingmaður og fyrrverandi ráðherra flokksins hefur kallað eftir, sé eðlilegra að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og ganga til kosninga. Þar geti flokkarnir sýnt kjósendum á spilin í orkumálum.

Hann segir boltann vera hjá ríkisstjórninni.

Flokkurinn sem fer með orkumálin

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, kallaði eftir því fyrir áramót að nýr þingmeirihluti yrði myndaður um orkumál. Þetta kom fram í viðtali við Viljann í kjölfar ummæla Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að hún óttist ekki raforkuskort en skilgreina þurfi grunnorkuþörf.

„Hér er kom­in upp sú ótrú­lega staða, að það er neyðarástand og orku­skort­ur yf­ir­vof­andi og við þurf­um alls ekki fleiri skýrsl­ur eða hvít­bæk­ur til að leysa þann vanda, við höf­um ein­mitt eytt allt of mikl­um tíma í slíkt í stað þess að hefjast handa um nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir,“ sagði Jón í sam­tali við Vilj­ann. 

Jóhanni Páli finnst ákallið koma úr athyglisverðri átt í ljósi þess að málaflokkurinn heyrir vissulega undir Sjálfstæðismönnum.

„Nú er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með orkumálin í ríkisstjórn í tíu ár. Núverandi varaformaður flokksins var orkumálaráðherra um margra ára skeið og núna fer flokkurinn bæði með orkumál og umhverfismál í ríkisstjórn,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Þurfa að gera grein fyrir því opinberlega

„Mér finnst það standa upp á Sjálfstæðisflokkinn að útskýra hvað það er nákvæmlega sem er verið að stöðva innan ríkisstjórnar af því að mál frá umhverfis- og orkumálaráðherra hafi sannarlega ekki setið föst í þinginu,“ segir Jóhann Páll og heldur áfram:

„Ef það er raunverulega þannig að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn eru að hamla framgangi rammaáætlunar eða eru með virkum hætti að reyna að koma í veg fyrir að það sé ráðist í skynsamlegar lagabreytingar til þess að einfalda leyfisveitingaferlið og skipulagsferlið, án þess að slá af kröfum um umhverfismat og nauðsynlegt almannasamráð, ef það er þannig þá finnst mér Sjálfstæðisflokkurinn þurfa að gera grein fyrir því opinberlega.“

Engin rammaáætlun á sjö árum

Hann segir lítið hafa hreyfst í þessum málum síðastliðinn áratug og upplifir að stjórnarmeirihlutinn hreinlega skammist sín fyrir framtaksleysið. Sjö ár hafi liðið án þess að ný rammaáætlun hefði verið samþykkt.

„Og það er ekkert hægt að tala um nýjan þingmeirihluta. Þá verður bara að boða til kosninga. Stjórnmálamenn mega ekki vera svona hræddir við kjósendur,“ segir Jóhann Páll og bætir við:

„Þau eru með þingmeirihluta og fara með orku- og umhverfismálin. Það hefur ekki staðið á okkur að styðja skynsamlegar lagabreytingar í þágu orkuöflunar á grundvelli leikreglna rammaáætlunar.“

„Það er miklu hreinlegra að spyrja bara kjósendur og leggja þá bara öll spilin á borðið – hvar flokkarnir standa í orkumálum.“

Verði að berja í borðið

Spurður hvort hann væri reiðubúinn að mynda nýjan þingmeirihluta um raforkumál, án þess að ganga til kosninga, svarar Jóhann Páll: „Ég held það sé þingmeirihluti fyrir aukinni orkuöflun.“

„En ef það er raunverulega þannig að í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, séu samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins að koma markvisst í veg fyrir aukna orkuöflun á grundvelli rammaáætlunar þá er kannski ekkert skrítið að Sjálfstæðisflokkurinn berji í borðið.”

Sammála um að virða leikreglur rammaáætlunar

En þú talar um að þú teljir að það sé meirihluti á þingi sem sé sammála um orkumál en nú eruð þið ekki sammála innan Samfylkingarinnar um orkumál.

„Ég hef ekki séð almennilega í hverju sá ágreiningur nákvæmlega felst en Samfylkingin er vissulega breiðfylking og rúmar margar skoðanir. Ég held að við séum öll sammála um að það þurfi að virða leikreglur rammaáætlunar og þær fela í sér að ráðist verður í aukna orkuöflun á faglegum grundvelli.“

En það er eitt að vera sammála um að það þurfi að ráðast í orkuöflun og annað að vera sammála um hvernig á að gera það. Er það ekki fyrst og fremst það sem stoppar að þessi mál fari í gegn?

„Já, en til þess þyrftum við einmitt að fá þingmálin fram og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem fer með orku- og umhverfismálin, á að hafa ákveðið frumkvæði þegar kemur að þessum málum. Leggja mál fyrir þingið af því eins og við vitum að þegar stjórnarandstaðan leggur fram mál þá daga þau venjulega uppi í nefndum.

Nú fer Sjálfstæðisflokkurinn með orku- og umhverfismálin og eðlilegt að frumkvæðið komi þaðan. Þá held ég að það standi ekki á okkur að styðja skynsamlegar aðgerðir og breytingar til þess að liðka fyrir aukinni orkuöflun á grundvelli rammaáætlunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert