Tilbúin að endurskoða gjaldskrár

mbl.is/Kristinn Magnússon

Góður vilji virðist fyrir því meðal forystumanna nokkurra stærstu sveitarfélaga landsins að endurskoða áform um hækkanir gjaldskráa, geti slíkt verið innlegg til þjóðarsáttar í kjarasamningum.

Stóra verkefnið þar sé að ná niður verðbólgu og háum vöxtum. Með þeim viðhorfum er fylgt þeim tóni sem bæjarstjórn Akraness sló með yfirlýsingu rétt fyrir áramót.

Leggja sitt af mörkum

„Reykjavíkurborg er tilbúin til þess að draga úr boðuðum breytingum á gjaldskrám ef slíkt getur stuðlað að gerð kjarasamninga með hóflegum launahækkunum,“ segir Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og væntanlegur borgarstjóri. Einar lýsti í nóvember sl. þeirri skoðun að ef aðilar vinnumarkaðarins myndu semja á hófsömum nótum væri borgin til í að leggja sitt af mörkum. Þessi afstaða var staðfest í borgarráði fyrir jól.

Samsett mynd/Oddgeir Karlsson/Sigurður Bogi

Nýtt verklag í Kópavogi

„Við erum tilbúin að endurskoða þegar samþykkta hækkun gjaldskrár ef það má verða til að greiða fyrir þjóðarsátt,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar, talar á sömu nótum.

„Ef vel tekst til og samið verður um hóflegar launahækkanir mun það sjálfkrafa leiða til hóflegra gjaldskrárhækkana hér,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi. Hún vekur athygli á því að Kópavogsbær hafi tekið upp nýtt verklag. Í stað þess að hækka gjaldskrár í upphafi hvers árs miðað við gefnar forsendur um verðlagsþróun, eins og víða er gert, taki gjaldskrár Kópavogsbæjar nú breytingum 2-4 sinnum á ári. Sé þá miðað við þróun kostnaðarliða í rekstri.

„Við í Árborg erum auðvitað tilbúin í samvinnu og að leggja okkar lóð vogarskálar til að greiða fyrir kjarasamningum,“ segir Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri. Hún kveðst raunar hafa vænst þess lengi að Samband íslenskra sveitarfélaga efndi til samtals um færar leiðir sem greitt gætu fyrir samningagerð.

Lesa má frek­ar um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert