Vísbendingar um aukinn kvikuþrýsting og auknar líkur á eldgosi

Vísindamenn telja það vísbendingu um aukinn kvikuþrýsting að hægt hafi …
Vísindamenn telja það vísbendingu um aukinn kvikuþrýsting að hægt hafi á landrisinu. mbl.is/Eyþór

Dregið hefur úr hraðanum á landrisinu við Svartsengi, en það er vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.

Ný GPS-gögn staðfesta að landrisið sé nú hægara en áður, en þau voru til umræðu á samráðsfundi vísindafólks á vegum Veðurstofunnar í morgun.

Segir í tilkynningunni að þessi breyting sé sambærileg breyting á landrisi og fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar. „Erfitt er þó að fullyrða um hvort að það munstur endurtaki sig,“ segir í tilkynningunni.

Rifjað er upp að fyrstu merki um að kvikuhlaup sé hafið sé skyndileg aukning í skjálftavirkni, en slík merki sáust rétt áður en eldgosið hófst 18. desember.

Undanfarna daga hefur skjálftavirkni á svæðinu verið nokkuð stöðug, en í kringum 200 skjálftar hafa mælst á dag. Flestir skjálftanna mælast undir 1,0 að stærð en um 30 skjálftar yfir 1,0 hafa mælst frá 29. desember og sá stærsti var 2,1 að stærð og átti upptök í nyrsta hluta Grindavíkur.

Segir í tilkynningunni að það sé áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur sé líklegast að það gjósi aftur í Sundhnúkagígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.  Hins vegar sé mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup endi ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Hættumatskort Veðurstofunnar frá 29. Desember er enn óbreytt og gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert