Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi héraðsdómari, hyggst bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi sem hann hélt að heimili sínu í Garðabæ nú fyrir hádegi.
Þá tilkynnti hann sömuleiðis afsögn sína úr flokknum.
Arnar hyggst beita sér fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar og telur hann mikilvægt að staldra við og skoða það valdaframsal sem þegar hefur átt sér stað og að mikilvægt sé að beita sér fyrir aðkomu þjóðarinnar að frekara valdaframsali í gegnum EES-samninginn.
Arnar hélt ræðu á fundinum þar sem hann vísaði til þess að Íslendingar hefðu frá örófi alda þurft að lúta erlendu valdi. Á þeim grunni hefði svo sjálfstæðisbaráttan verið háð.
Nú sé svo komið að Ísland sé enn á ný á tímamótum. „Á grundvelli viðskiptasamnings EES-samningsins] seilist ESB nú eftir því að ráða lögum hérlendis í sífellt ríkari mæli. Í nafni öryggis seilast erlendar stofnanir nú til áhrifa og ítaka hér á landi," segir Arnar.
Hann telur að fulltrúalýðræðið sé að bregðast hvað valdaframsal varðar og að beint lýðræði þurfi að taka upp í auknum mæli.
„Við eigum að stjórna okkar eigin för, okkar eigin landi, okkar eigin framtíð. Af því leiðir að ef fulltrúalýðræðið er að bregðast, þá verðum við að taka upp beint lýðræði í mikilvægustu málum.“
Nefnir hann nokkur dæmi máli sínu til stuðnings varðandi það hvernig valdaframsali hafi verið háttað og hvaða áskoranir séu fram undan. Nefnir hann orð Harðar Arnarsonar um að Landsvirkjun hafi lengi vel borið ábyrgð á raforkuöryggi en það fyrirkomulag hafi verið afnumið fyrir 20 árum þegar evrópskar raforkuskipanir voru innleiddar á Íslandi.
Þá nefnir hann gjöld á flutninga til og frá Íslandi sbr. lögleiðingu viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.
Eins telur hann að beita eigi sér gegn bókun 35 með samhentu átaki. Bókunin áréttar innleiðingu skuldbindinga í samræmi við ákvæði EES-samningsins.
Að lokum nefnir hann orð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra sem Arnar segir að hafi látið í veðri vaka að hún teldi ekki ástæðu til að almenningur fengi að tjá sig um aðild Íslands að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur væri það hlutverk stjórnmálamanna.
„Þingmenn farnir að haga sér eins og embættismenn og vísbendingar um að þeir
séu ekki að vinna í okkar þágu. Alþingi virðist iðulega bremsulaust. Ef fulltrúalýðræðið er í hættu, þá getur þjóðkjörinn forseti verið öryggisinnsigli í mikilvægustu málum þjóðarinnar,“ segir Arnar.
Þá segir hann að hafi litið á það sem áskorun um að bjóða sig fram þegar Guðni tilkynnti um ákvörðun sína um að fara ekki fram.
„Ég vil undirstrika að ég tek þessa ákvörðun ekki af neinni léttúð, ég er hlédrægur að eðlisfari og kann ekki vel við mig í sviðsljósinu, en ég tek þessa ákvörðun óhræddur og óhikað, því frelsi þjóðarinnar og sjálfstæði Íslands er mér hjartans mál:
Ég ber ást til landsins míns og hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Ekkert mál er mikilvægara en að standa vörð um landið okkar og sjálfsákvörðunarrétt okkar sem manna og sem þjóðar,“ segir Arnar í ræðu sinni.
„En ég hef líka annað sem veitir mér öryggi og kjark til að taka þessa ákvörðun, þ.e. mína góðu eiginkonu, Hrafnhildi Sigurðardóttur, lífsförunaut minn til rúmlega 30 ára, sem ég leyfi mér að kalla „fjallkonu“ í besta skilningi þess orðs, konu sem gæti borið alla þjóðina á
herðunum ef þess þyrfti, konu sem getur fært ljós inn í svartasta myrkur, kærleika, þar sem hatur ríkir, trú, þar sem efinn ræður, von, þar sem örvæntingin drottnar.
Saman viljum við vera Íslendingum góðar fyrirmyndir og kalla þá til liðs við okkur - og hér vísum við til allra sem vilja með stolti kalla sig Íslendinga, hvort sem þeir fæddust hér eða ekki. Við hjónin erum sammála um að tímabært sé orðið og nauðsynlegt að Íslendingar skerpi markmiðin, að við ákveðum hvert við viljum stefna, hvaða gildum við viljum lifa eftir, hvað við viljum verja,“ segir Arnar.
„Horfa á það sem sameinar okkur, ekki það sem sundrar okkur. Verkefnin eru stór og krefjandi, en þetta eru verkefni sem við treystum okkur í, með ykkar stuðningi og samvinnu okkar allra.“