Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og svipt hann ökuréttindum í hálft ár vegna banaslyss við gatnamót Gnoðarvogs og Skeiðarvogs í nóvember árið 2021.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ekið hópbifreið „án nægjanlegrar aðgæslu og varúðar og án þess að virða forgang gangandi vegfaranda“ þannig að hópbifreiðin hafnaði á konu sem gekk gegnt grænu umferðarljósi yfir gangbraut við vegamótin.
Konan féll og lenti undir hægra framhjóli og hægri hlið hópbifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hún hlaut fjöláverka og lést nær samstundis.
Álærði neitaði sök fyrir dómi og byggði á því að umrætt slys yrði ekki rakið til gáleysis hans.
Mörg vitni urðu að slysinu og báru nokkur þeirra vitni fyrir dómi. Meðal vitna var kennari í Menntaskólanum við Sund. Var hún á leið til vinnu þegar slysið varð og kveðst hafa heyrt einkennilegt hljóð sem hún áttaði sig ekki á. Það var síðan þegar hún leit upp og í átt að strætisvagninum sem hún sá manneskju undir vagninum.
Í framburði ákærða minnist hann þess að umrædd kona hafi komið að vagninum og sagt að allir ættu að vera áfram í vagninum. Í framburði annars vitnis kemur fram að kennarinn hafi hringt í lögreglu.
Annað vitni kveðst hafa séð hina látnu ganga út á götuna og verða fyrri vagninum. Sagði hún konuna hafa horft niður fyrir sig og kvað hún vagninn hafa verið byrjaðan að beygja þegar konan gekk út á götuna. Sagði hún jafnframt að vagninum hafi ekki verið ekið hratt enda hefði hann verið að taka krappa beygju.
Ákærði neitaði sök og byggði á því að umrætt slys yrði ekki rakið til gáleysis hans. Eins bar hann því við að hann hefði ekki séð hina látnu í aðdraganda slyssins.
Við ákvörðun refsingar var litið til hinna alvarlegu afleiðinga sem urðu af aðgæsluleysi hans. Á móti var litið til þess að þrátt fyrir að hann hefði neitað sök þá hefði hann skýrt greiðlega frá og ekkert dregið undan. Þá lá fyrir að slysið og afleiðingar þess hefði haft veruleg áhrif á andlega líðan hans.
Til viðbótar við skilorðsbundið fangelsi og sviptingu ökuréttinda, dæmi héraðsdómur manninn til að greiða eiginmanni hinnar látnu og dóttur hennar, 2 milljónir króna í miskabætur til hvors um sig. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns upp á um 1,4 milljónir króna, kostnað bótakrefjanda við að halda uppi kröfum upp á 1.600.000 krónur og 735.960 krónur í annan sakarkostnað.