Gjaldþrot Reykjavíkur kemur í veg fyrir framboð

Afar bágborin fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar kemur í veg fyrir þann möguleika að Dagur B. Eggertsson bjóði sig fram til embættis forseta. Þetta er mat Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns.

Hann er gestur þeirra Andrésar Magnússonar og Stefáns Einars Stefánssonar ásamt Snorra Mássyni fjölmiðlamanni í nýjasta þætti Dagmála.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundi um lífsgæðakjarna framtíðarinnar. Hann …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundi um lífsgæðakjarna framtíðarinnar. Hann lætur senn af embætti borgarstjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gegnt embættinu í tæp átta ár

Þar ræða þeir komandi forsetakosningar sem fram fara 1. júní næstkomandi. Ljóst er, í kjölfar yfirlýsingar dr. Guðna Th. Jóhannessonar á nýársdag, að nýr forseti verður settur í embætti þann 1. ágúst næstkomandi.

Guðni hefur gegnt embættinu í tæp átta ár en hann var fyrst kjörinn árið 2016 þegar níu frambjóðendur öttu kappi um embættið í kjölfar þess að ljóst var að dr. Ólafur Ragnar Grímsson myndi ekki æskja endurkjörs. Þá hafði hann setið á Bessastöðum í tvo áratugi.

„Hefur ekki unnið neinar kosningar hingað til“

„Ég held að Dagur eigi kannski ekki breik í þetta embætti þegar hann er að skila af sér borginni gjaldþrota [...] Hann hefur ekki unnið neinar kosningar hingað til, það hafa alltaf einhverjir bjargað honum,“ segir Sigurður en hann hefur áður komið að forsetakosningum, m.a. sem umboðsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjörinu árið 1996.

Þegar þáttastjórnandi bendir á að Dagur njóti mikils stuðnings í Reykjavík gefur Sigurður lítið fyrir það og fullyrðir að það sé vegna Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, sem fylgi flokksins mælist mikið í borginni, en ekki vegna borgarstjórans sem senn lætur af embætti og réttir keflið í hendur framsóknarforingjans, Einars Þorsteinssonar.

Þáttinn með Sigurði og Snorra má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka