Íbúum blöskrar fimmföld verðhækkun

Breytt gjaldskrá í Guðlaugu vekur ýmsar tilfinningar bæjarbúa og annarra.
Breytt gjaldskrá í Guðlaugu vekur ýmsar tilfinningar bæjarbúa og annarra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Velunnarar Guðlaugar eru vægast sagt æfir yfir áformum Akraneskaupstaðar um að hækka gjaldskrá í laugina. Um er að ræða fimmfalda hækkun og fer almenna verðið þannig úr 500 kr. í 2.500 kr.  

Náttúrulaugin Guðlaug við Langasand á Akranesi var opnuð árið 2018 og hefur notið gríðarlegra vinsælda síðan þá. Fyrst um sinn var gjaldfrjálst í laugina en í byrjun júní árið 2021 hófst formleg gjaldtaka. Nú, tveimur og hálfu ári síðar, hefur verðið verið hækkað um 500%.

„Svalt“ þegar það var frítt í Guðlaugu 

Það var að morgni nýársdags sem velunnurum Guðlaugar birtist færsla á Facebook þar sem upplýst var um nýja gjaldskrá laugarinnar. Gjaldskrá sem tók gildi þá og þegar. Gjaldskrá sem upplýsti velunnara laugarinnar um að aðgangseyririnn hefði hækkað um 500%. 

Í ummælum við færsluna má greina mikil vonbrigði velunnara sem einhverjir eru á því að verðið muni fæla fólk frá. Aðrir minnast þess hversu „svalt“ það var þegar aðgangur í laugina var gjaldfrjáls. Hyggjast þeir njóta sín í flæðarmálinu á meðan aðgangur að Langasandi er enn ókeypis.

„Æææ þetta er svakaleg hækkun,“ segir ein á meðan önnur heldur því fram að heimamenn muni hætta að fara í Guðlaugu, sem í framhaldinu verður „túristalón“.

„Jæja á nú að reyna að fækka komum í Guðlaugu til að réttlæta lokun hennar? Er það málið?“ spyr einn undir færslunni áður en hann hvetur til þess að nýja gjaldskráin verði endurskoðuð. 

Bærinn á ekki að standa í taprekstri

Ekki eru þó allir æfir yfir verðhækkuninni. Einn íbúi segir þetta „fullkomlega eðlilegt – ekki bæjarins að standa í taprekstri á baðlóni“. Telur sá að eðlilegast væri að bjóða lónið út en segir þetta jákvætt skref. 

Orðið baðlón virðist þó ekki falla vel í kramið hjá velunnurum sem svara: „Þetta myndi seint kallast baðlón“. Er það mögulega vegna þess að búningsaðstaða á svæðinu er eins „frumstæð og hugsast getur“, eins og ein kemst að orði í færslu sem birtist á Facebook-síðu Akurnesinga, sem ber heitið Ég er íbúi á Akranesi, í kjölfar tilkynningarinnar um nýja gjaldskrá. 

Undir þeim þræði hafa janframt skapast eldheitar umræður þar sem íbúar keppast til að mynda um að skilgreina laugina. Það er að segja hvort um sé að ræða baðlón á pari við Sky lagoon og Kraumu eða hvort hreinlega sé hægt að bera laugina saman við Nauthólsvík, þar sem aðstaðan á að teljast nokkuð ásættanlegri en við Guðlaugu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert