Borgaryfirvöld hafa samþykkt að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn bandaríska sendiráðsins vegna breytinga á einbýlishúsinu Sólvallagötu 14. Sendiráðið festi kaup á húsinu árið 2020. Áformað er að þarna verði heimili bandaríska sendiherrans.
Eins og fram hefur komið hér í blaðinu hafa íbúar í hverfinu mótmælt harðlega þeim breytingum sem til stendur að gera. Telja þeir að starfsemin í húsinu falli ekki að friðsælu og þéttbýlu íbúðahverfi.
Við grenndarkynninguna geta íbúarnir sem leitað er til borið fram mótmæli og sent inn athugasemdir. Það ber hins vegar að hafa í huga að þetta er sendiráðslóð og þær njóta sérstöðu vegna svonefnds Vínarsamnings eins og fram hefur komið í fyrri úrskurðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur fimmtudaginn 21. desember 2023 var lagt fram erindi frá afgreiðslufundi byggingarfulltrúa frá 19. desember 2023 þar sem sótt er um leyfi til þess að breyta innra skipulagi, byggja lyftuhús norðan aðalinngangs, byggja yfir svalir ofan á inngangi, gera nýjan inngang og tröppur á norðurhlið 1. hæðar að eldhúsi íbúðarhúss, byggja ofan á bílskúr, með aðgengi um utanáliggjandi stiga meðfram vesturhlið og reisa öryggisgirðingu inni á lóð og meðfram lóðarmörkum aðliggjandi lóða einbýlishúss á lóð nr. 14 við Sólvallagötu.
Samþykkt var að grenndarkynna framlagða byggingarleyfisumsókn fyrir hagsmunaaðilum á Sólvallagötu 12, 16, 18, 11, 13, 15, 17 og 19, Hávallagötu 21, 23, 25 og 29 og Blómvallagötu 2.
Á heimasíðu Skipulagsstofnunar segir: Grenndarkynning felst í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.
Íbúaráði Vesturbæjar barst í síðasta mánuði erindi frá 79 íbúum í gamla Vesturbæ sem hafa miklar áhyggjur af umfangsmiklum breytingum sem bandaríska sendiráðið hyggst gera á Sólvallagötu 14. „Íbúar draga í efa að starfsemin sem fara á fram í húsinu geti flokkast undir heimilisrekstur í ljósi umfangs og eðlis þeirra breytinga og öryggisvarna sem fyrirhugaðar eru,“ segir í bréfinu.
Miðað við tóninn í bréfinu má búast við fjölda athugasemda þegar íbúarnir bregðast við grenndarkynningunni.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.