Réttindi barna vega þyngra en trúarskoðun foreldra

Silja Dögg Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknar.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknar. Ljósmynd/norden.org

„Við sem þjóð þurfum í raun að ákveða hvers virði eru mannréttindi og sjálfsákvörðunarréttur barna,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknar. Hún telur mikilvægt að umræða um bann við umskurði drengja verði aftur tekin fyrir á Alþingi. 

Í samtali við mbl.is segir Silja að sér þyki leitt að heyra fréttir af rannsókn lögreglu á hvort 17 mánaða gamall drengur hafi verið umskorin á heimili sínu á Akureyri í september árið 2022. 

Í umfjöllun Ríkisútvarpsins í gær kom fram að drengurinn hefði verið fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri í kjölfar umskurðsins, þar sem þurfti að framkvæma aðgerð á honum til að koma í veg fyrir sýkingu.

Frumvarp árið 2018

Umskurður stúlkna var bannaður með lögum hér á landi árið 2005 en heimilt er að framkvæma umskurð á kynfærum drengja.

Silja lagði fram frumvarp árið 2018 um lögbann við umskurði drengja sem hratt af stað mikilli umræðu í samfélaginu

Kveðst Silja hafa vonað á sínum tíma að bann við aðgerðinni yrði viðtekið einmitt til að koma í veg fyrir tilfelli eins og drengsins á Akureyri. 

Fékk ekki að fylgja með í frumvarpi um intersex börn

Aðspurð hvað hafi orðið til þess að lögin hafi ekki farið í gegn á sínum tíma segir Silja það fjölþætt. Fyrst og fremst hafi hún sjálf hætt á þingi og umræðan þar af leiðandi strandað smá. Einnig hafi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, þá haft frumvarp í bígerð um bann við ónauðsynlegum aðgerðum á intersex börnum þ.e. börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. 

„Ég var svona að vonast til að þetta bann á umskurði drengja gæti rúmast inni í því með einhverjum hætti,“ segir Silja.

Hún segir forsætisráðherrann aftur á móti hafa haft áhyggjur af því að málið myndi ekki klárast yrði málunum tveimur blandað saman, enda hafi tekið langan tíma að koma frumvarpinu í gegn.

Silja kveðst þó vongóð um að umræðan verði nú aftur tekin fyrir á þingi í kjölfar umfjöllunar um mál drengsins.

„Það er mögulegt að einhverjir þingmenn, nú þegar þetta mál kemst svona í fréttirnar aftur, átti sig á því að samfélagið okkar er að breytast. Það er orðið fjölmenningarlegra og svo sem við því búist að svona nokkuð myndi koma upp því miður.“

Lögregla rannsakar nú mál sem snýr að umskurði drengs í …
Lögregla rannsakar nú mál sem snýr að umskurði drengs í heimahúsum.

Skrítið að lögin séu skýr um alla nema drengi

Lög um umskurð drengja eru enn óljós en Silja sendi fyrirspurn til dómsmálaráðherra árið 2018 um lögmæti aðgerðarinnar og fékk þau svör að slíkt þyrfti að útkljá fyrir dómstólum, þar sem lögin væru óskýr. 

„Það má þó túlka sem svo, bæði í barnaverndar- og heilbrigðislögum, að þetta sé bannað en það er ekki skýrt,“ segir Silja.

Henni finnst það hálfskrítið að skýr lög gildi um aðgerðir á stúlkum og intersex börnum, en að ekki sé skýrt hvort gera megi ónauðsynlegar aðgerðir á kynfærum stálheilbrigðra drengja. Það gangi í berhögg við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barna til að ráða yfir eigin líkama. 

„Þess vegna taldi ég mikilvægt á sínum tíma að leggja fram þetta frumvarp. Vegna þess að þetta væri alveg nógu skýrt í lögum eins og er um stúlkubörn og um intersex börn. Að ónauðsynlegar og óafturkræfar aðgerðir á börnum séu með öllu bannaðar alveg sama hvers kyns barnið er.“

 „Á ekki að snúast um refsingu“

Hún segir marga vissulega hafa lagst gegn frumvarpinu  á sínum tíma af ýmsum ástæðum. Þá hafi margir til að mynda talið rétt foreldra til trúarskoðunar æðri en rétt barna til sjálfsákvörðunar yfir eigin líkama.

Þá hafi sumir einnig lagst gegn frumvarpinu þrátt fyrir að vera hlynntir því að banna umskurð drengja. Frumvarpið kvað á um að brot á fyrirhugaðri löggjöf myndi jaðra við hegningarlög, en sumir mæltust frekar til þess að breyting yrði gerð á heilbrigðislögum. 

„Ég held að það sé þess virði að skoða það vandlega hvort að það sé leiðin. Tilgangurinn er skýr og svo er spurningin hvernig er best að koma þessu fyrir í lögum,“ segir Silja.

Hún tekur þó fram að frumvarpið sem hún lagði fram á sínum tíma hafi nánast verið það sama og frumvarpið um lögbann við umskurð stúlkna, orð fyrir orð.

„Ég breytti bara orðinu stúlka í drengur.“

Ávalt einhverjir sem afvegaleiði umræðuna

Silja kveðst telja mjög mikilvægt að upplýst umræða fari fram að nýju. Aukin vitundarvakning um réttindi barna hafi átt sér stað á undanförnum árum og hún telji því mikilvægt næsta skref að taka fyrir kynrænt sjálfræði drengja. 

Hún bætir þó við að auðvitað séu ávallt einhverjir sem afvegaleiði umræðuna með öfga- og hatursfullum skoðunum, sem eigi ekki erindi í umræðunni. Málið eigi aðeins að snúast um réttindi barna og því sé mikilvægt að fólk taki afstöðu.

„Það er mín skoðun að réttindi barna eigi að vega þyngra en trúarskoðun foreldra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert