Skjálftarnir líklega vegna spennubreytinga

Kleifarvatn. Skjálftarnir urðu vestur af vatninu.
Kleifarvatn. Skjálftarnir urðu vestur af vatninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðskjálftahrinan við Trölladyngju orsakast líklega af miklum spennubreytingum á Reykjanesskaga, að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, jarðeðlisfræðings og fagstjóra aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.

Upptök skjálftanna eru í jaðri landrissins sem mældist í haust í Fagradalsfjallskerfinu og telur Benedikt líklegra að skjálftarnir tengist flekaskilunum sem þeir eru við frekar en eldvirkni.

Gætu liðið nokkrir dagar

Enginn gosórói hefur mælst á Reykjanesskaga og hafa litlar breytingar verið á landrisinu við Svartsengi, en eins og kom fram í gær hefur hægst á hraða þess.

Svipar því til þróunarinnar sem var í aðdraganda eldgossins sem hófst við Sundhnúkagígaröðina 18. desember.

Að sögn Benedikts leið vika frá því að jarðvísindamenn sáu skýr merki um að hægt hefði á landrisinu við Svartsengi og þar til eldgos hófst síðast. Gætu því liðið nokkrir dagar til viðbótar þar til það fer að draga til tíðinda á Reykjanesskaganum, ef það gerist þá yfirhöfuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert