Skemmtikrafturinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, kveðst ætla að standa við framboð sitt til forseta gegn því að það hefjist eldgos á þrettándanum, 6. janúar. Segist hann finna á sér að það muni byrja að gjósa að nýju þann dag.
Dóri DNA tilkynnti framboð sitt á samfélagsmiðlinum X skömmu eftir að Guðni Th. Jóhannesson forseti tilkynnti að hann myndi ekki gefa kost á sér þriðja kjörtímabilið.
Eins og frægt er spáði Dóri fyrir eldgosið sem hófst 18. desember í Spursmálum. Verður áhugavert að fylgjast með hvort grínistinn verði sannspár á nýju ári.
Að gefnu tilefni.
— Halldór Halldórsson (@doridna) January 2, 2024
Eftir að hafa ráðfært mig við mína nánustu hefur komið í ljós að þessi hugmynd mín, leggst ákaflega illa í fólk.
Ég hef því ákveðið eftirfarandi.
Muni gjósa aftur á þrettándanum (eins og ég finn á mér) - fer ég í framboð.
Annars ekki.
Dóri hefur verið stóryrtur á samfélagsmiðlinum eftir að hafa viðrað framboðið og hefur m.a. heitið því að setja upp bekkpressu og litla hnefaleikaaðstöðu á Bessastöðum.
„Kosningaherferðin verður keyrð á svona 60% Andra Snæs dæmi og 40% funked out gangster twist,“ sagði hann m.a.
Í gærkvöldi kvað þó við nýjan tón þegar hann viðurkenndi að þessi hugmynd hans um að bjóða sig fram legðist ákaflega illa í fólk.
„Að gefnu tilefni. Eftir að hafa ráðfært mig við mína nánustu hefur komið í ljós að þessi hugmynd mín, leggst ákaflega illa í fólk. Ég hef því ákveðið eftirfarandi. Muni gjósa aftur á þrettándanum (eins og ég finn á mér) – fer ég í framboð. Annars ekki,“ segir í tísti Dóra.