Telja Katrínu líklegasta í forsetakjör

mbl.is/María Matthíasdóttir

Sú staðreynd að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ekki aftekið í viðbrögðum sínum að hún kunni að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands, sem kosið verður um 1. júní næstkomandi, gefur til kynna að hún sé hugmyndinni ekki afhuga.

Þetta bendir Snorri Másson fjölmiðlamaður á í samtali í Dagmálum en þar er hann gestur ásamt Sigurði G. Guðjónssyni hæstaréttarlögmanni sem var á sínum tíma umboðsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar þegar sá síðarnefndi bauð sig fram til embættis forseta árið 1996.

Sigurður segist spenntur fyrir því að sjá Katrínu á forsetastóli og telur að fáir geti skákað henni ef nafn hennar verður á kjörseðlinum í sumar.

Hefur áhrif á pólitíkina

Snorri er Sigurði að mörgu leyti sammála en telur þó æskilegra að fá einhvern í embættið úr annarri átt. Þannig hafi lítið kveðið að fráfarandi forseta og embættið skorti tilfinnanlega tilgang. Betra væri að hafa forseta sem tæki áhættu en væri ekki hræddur við að það hvessti í kringum hann endrum og eins.

Í þættinum, sem aðgengilegur er öllum áskrifendum Morgunblaðsins hér fyrir neðan, berst talið nokkuð að því hvaða áhrif það kynni að hafa á fremur tætt stjórnarsamstarf VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ef Katrín lýsti yfir framboði.

Þá kynni það og að setja mark sitt á forsetakjör ef óvænt yrði boðað til kosninga til Alþingis nú á vordögum. Við slíkar aðstæður yrði ljóst að ekki yrði þverfótað fyrir kosningum á árinu, en á vordögum verður nýr biskup Íslands kjörinn eftir atkvæðagreiðslu meðal myndarlegs hóps þjóðkirkjufólks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert