„Það er áhyggjuefni að ránum og alvarlegum ofbeldisbrotum sé að fjölga núna á allra síðustu árum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is, spurð út í bráðabirgðatölfræði lögreglunnar um afbrot á Íslandi á síðasta ári.
Aukinn vopnaburður, fleiri rán en nokkurn tímann áður, fordæmalaust magn af fíkniefnum og 7.000 einstaklingar handteknir er meðal þess sem blasir við í bráðabirgðatölfræðinni.
Margrét hefur fylgst náið með stöðu mála hér á landi og bendir hún á mögulega fylgni aukins flæðis fíkniefna og rána.
„Rán er alvarlegt brot sem felur í sér þjófnað þar sem beitt er hótunum eða ofbeldi. Og því eru refsingar fyrir rán nokkuð harðar, og samkvæmt lögum óskilorðsbundnar,“ segir Margrét.
Hún bendir á að rán tengist oft skaðlegri fíkniefnaneyslu og telur því ekki ólíklegt að þessi fjölgun sé afleiðing af aukinni fíkniefnaneyslu. Mörg rán tengjast einnig áfengisdrykkju að sögn Margrétar.
„Það kom út viðamikil skýrsla um rán á Íslandi árið 2005, sem Auðbjörg Björnsdóttir gerði, og í þeirri skýrslu kom meðal annars fram að flest rán væru framin um helgar á kvöldin eða á morgnana, og að gerendur væru ungir fíkniefnaneytendur,“ bendir Margrét á og segir að ef til vill þurfi að fara í nýja rannsókn til að kanna hvort staðan hafi breyst og hvernig sé þá hægt að bregðast við.
Viðbragðið gæti til dæmis falið í sér hvort auka þurfi eftirlit og kanna þá hvar helst. Eins væri skynsamlegt að huga að því að draga úr skaðlegri neyslu fíkniefna.
„Þá er ég ekki að tala um harðari refsingar heldur frekar um einhverskonar skaðaminnkunarúrræði,“ segir Margrét.
Á sama tíma og flestum tegundum af ofbeldisbrotum fjölgar, hefur hins vegar tilkynningum til lögreglu vegna kynferðisbrota fækkað um 30% miðað við meðal fjölda tilkynninga 3 ár á undan. Fjöldi heimilisofbeldisbrota er svipaður og fyrri ár en um 1.100 tilvik eru tilkynnt til lögreglu árlega.
„Það er afar jákvæð þróun. Það getur verið að sá fókus sem hefur verið á þeim brotum á síðustu árum sé að skila sér í fækkun kynferðisbrota. Það hefur verið mikil vitundarvakning í samfélaginu um alvarleika kynferðisbrota og lagt hefur verið áhersla á að taka kynferðisbrotum alvarlega í réttarkerfinu, bæði hjá lögreglu og dómstólum,“ segir Margrét.
Síðasta sumar var þriðjungur þeirra sem afplána dóm á Íslandi og 60% allra gæsluvarðhaldsfanga erlendir ríkisborgarar og hefur það hlutfall hækkað hratt á síðustu árum.
Margrét segir nokkrar mögulegar skýringar á því. Meðal annars þá einföldu staðreynd að hér búi nú mun hærra hlutfall fólks með erlendan bakgrunn en áður. Því sé hærra hlutfall innflytjenda í nánast allri tölfræði.
„En það má vera að hér sé einnig hópur fólks með erlendan bakgrunn sem sé líklegri til að brjóta af sér en aðrir Íslendingar, það er þá mikilvægt að greina hvers vegna það er. Það er óþarfi að veigra sér við því að skoða það,“ segir Margrét.
Hún segir að eins og innfæddir séu innflytjendur allskonar. Einnig að rannsóknir sýni fram á að innflytjendur séu jaðarsettir í samfélaginu.
„Það er að segja félags- og efnahagsstaða þeirra er að jafnaði verri en innfæddra og þeir hafa veik tengsl við samfélagið í heild, þar er tíðni brota sem innflytjendur fremja hærri en tíðni innfæddra. Þetta á sérstaklega við ef innflytjendur upplifa að þeim sé mismunað í samfélaginu,“ segir Margrét.
Hún segir samsetningu innflytjenda einnig skipta máli því ef óvenju hátt hlutfall innflytjenda séu ungir karlar, það er að segja óvenju hátt miðað við hlutfall þeirra meðal innfæddra, megi búast við að innflytjendur fremji fleiri brot en innfæddir.
„Því alls staðar í heiminum eru ungir karlar sá hópur sem er ábyrgur fyrir flestum alvarlegum brotum,“ segir Margrét.
Margrét bendir á að í þjóðmálaumræðunni sé talað um að ákveðinn hópur innflytjenda komi hingað til lands sérstaklega í þeim tilgangi að fremja afbrot og séu til dæmis hluti af skipulagðri brotastarfsemi.
„Ef það er þannig þá tel ég að þetta hljóti að vera aðeins brot af þeim sem hér búa. Ég hef til dæmis ekki séð neitt í rannsóknum sem styður það að fólk flytji á milli landa vegna vægra refsinga, eins og stundum er nefnt,“ segir Margrét.
Hún bendir þó á að í sumum löndum verði innflytjendur oft fyrir mismunun í réttarkerfinu.
„Til dæmis er óvenju mikill fókus lögreglu á brot sem innflytjendur fremja, sem skilar sér í að þeir lenda frekar í fangelsi en innfæddir, hvort það eigi við hér hefur ekki verið kannað sérstaklega.“ segir Margrét.