Embætti ríkislögreglustjóra ber að veita manni aðgang að afriti símtals til Neyðarlínunnar en símtalið barst eftir að maðurinn mætti óboðinn í jarðarför. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn, sem er viðfangsefni símtalsins, mætti óboðinn í jarðaför og hafi dóttir hinnar látnu hringt á Neyðarlínuna vegna þess. Niðurstöður nefndarinnar telja hagsmuni mannsins vega meiri en annara einkaaðila í málinu.
Forsaga málsins er sá að óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna kæranda sem hafi mætt óvelkominn í jarðarför. Í kærunni eru engar upplýsingar um staðsetningu né hvenær atburðurinn hafi átt sér stað. Samkvæmt upplýsingum í úrskurðinum fór lögregla á staðinn og virðist maðurinn hafa í kjölfarið yfirgefið jarðaförina.
Þann 21. júlí 2022 hafði maðurinn samband við lögreglu og óskaði eftir afriti af samtali tilkynnanda við lögregluna og skýrslu af vettvangi. Í upplýsingum sem hann fékk tæpri viku seinna var honum tilkynnt að engin eiginleg skýrsla hafi verið gerð, einungis stutt bókun um verkefnið. Einnig var hann upplýstur um að ef væru til staðar upptökur af samtölum væru þær ekki afhentar málsaðilum. Lögreglustjóri afhenti kæranda þann 16. ágúst útprentun á dagbókarfærslum í málinu, án persónugreinanlegra upplýsinga annarra einstaklinga tengdum málinu. Beiðni um upplýsingar um símtalið við Neyðarlínuna var framsend til ríkislögreglustjóra.
Tíu dögum seinna kom kærandi því á framfæri að mikilvægt væri að hann fengi afrit af símtalinu, bæði vegna þess að hann „telur sig eiga skilyrðislausan rétt á því, enda hafi afskipti lögreglu falið í sér inngrip í líf hans með afgerandi hætti, og hins vegar til að leggja mat á það hvers vegna lögreglan hafi orðið við erindi tilkynnanda og komið nánast eins og skot eftir að innhringing hafi átt sér stað til að koma í veg fyrir þátttöku kæranda í athöfninni.“
Kærandi ítrekaði beiðni sína þó nokkrum sinnum en var að lokum synjað aðgang að upplýsingunum. Maðurinn kærði þessa niðurstöðu. Í umsögn ríkislögreglustjóra segir að hagsmunir dótturinnar og hinnar látnu í málinu vægju meira en hagsmunir mannsins um aðgang að gögnum.
Niðurstaða úrskurðarnefndar upplýsingamála var þó önnur. Að mati nefndarinnar vega hagsmunir mannsins meira í málinu. Kærandi hafi hagsmuni af því að fá heildstæða mynd af atburðinum. Verður því fallist á rétt kæranda til aðgangs að endurriti af símtalinu.