Fékk ekki að borga og sakar bankann um fordóma

Landsbanki Íslands.
Landsbanki Íslands. mbl.is/Halldór Kolbeins

Bragi Guðmundsson, 75 ára eftirlaunaþegi, sakar Landsbankann um aldursfordóma í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Bragi greinir frá nýrri öryggisráðstöfun bankans, þar sem lokað er á erlendar millifærslur hjá viðskiptavinum sem eru yfir 70 ára aldri. Þetta sé gert vegna þess að það er sá hópur fólks sem er líklegri en annar til að lenda í fjársvikum.

Kveðst Bragi hafa ætlað að borga erlendan reikning í netbanka á dögunum. Það hafi hann ekki getað og í kjölfarið haft samband við Landsbankann.

Lokað á erlendar færslur hjá eldri en 70 ára

Segir hann svar bankans hafa hljóðað svo:

„Það sem veldur þessu er öryggisráðstöfun bankans. Nú í lok nóvember var lokað á erlendar millifærslur hjá viðskiptavinum sem eru yfir 70 ára aldri þar sem að sá hópur fólks er líklegri en annar til þess að lenda í fjársvikum. Ef að þú óskar eftir því að þetta verði opnað hjá þér máttu endilega segja okkur stuttlega frá færslunni, hvert hún er að fara og hver viðtakandinn sé. Þessi ráðstöfun er ekki gerð í neinum öðrum tilgangi nema að reyna allt sem í okkar valdi stendur til þess að vernda viðskiptavini bankans. Ef þú hefur þörf á frekari aðstoð, ekki hika við að hafa samband.“

Í kjölfarið gerði Bragi sér ferð í Landsbankann. Þar tók á móti honum þjónustufulltrúi sem Bragi segir ekki hafa kannast við þessa reglu. Braga tókst að framkvæma erlendu greiðsluna en þurfti aftur á móti að greiða 1.900 krónur í þjónustugjald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert