Klara Ósk Kristinsdóttir
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, kveðst ekki sannfærður um að skjálftahrinan við Trölladyngju í gær hafi verið afleiðing af landrisi við Svartsengi.
Þetta segir hann í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hann segir það vel mega vera, að hrinan hafi verið hluti af þeirri spennulosun sem er í gangi á svæðinu og hreyfingum á flekaskilunum.
Hrinan sé þó einnig til marks um að Reykjanesskaginn sé kominn af stað.
„Skjálftarnir eru að segja okkur að aðrar gosreinar á svæðinu eru að vakna. Að því leytinu til eru þeir að segja okkur það að eldvirknin getur færst til,“ segir Þorvaldur.
„Ef við fáum eldvirkni á Trölladyngjureininni og síðan yfir í Krýsuvíkurreinina þá getur sú eldvirkni verið mun norðar en hefur verið hingað til.“
Bætir hann við að þá verði eldvirknin um leið komin mun nær stórhöfuðborgarsvæðinu.
Hins vegar segir hann ekki gott að segja til um hvenær það geti orðið, það gæti verið á þessu ári eða á næstu hundrað árum.