Farþegaflugvél af gerðinni Boeing 777 á leið frá Tókýó, höfuðborg Japans, til Parísar, höfuðborgar Frakklands, var beint til Keflavíkurflugvallar í nótt.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir vélina hafa lent í Keflavík um hálffimmleytið vegna veikinda farþega. Tveir farþegar fóru frá borði, þ.e. sá sem veiktist og sá sem var líkast til að ferðast með honum.
Flugvélin tók aftur á loft áleiðis til Parísar á milli klukkan sex og sjö í morgun.
„Það er ekki óalgengt að svona komi upp, jafnvel nokkrum sinnum í viku ef það verða þannig veikindi að það er talið að það þurfi að bregðast við,” segir Guðjón, sem getur ekki veitt nánari upplýsingar um veikindin.
Þegar svona tilfelli koma upp er haft samband við Keflavíkurflugvöll vegna þess að hann er nálægasti völlurinn.