Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að verða við beiðni um afhendingu karlmanns til Póllands á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar sem gefin var út í byrjun ágúst 2023.
Þann 1. ágúst 2023 gáfu pólsk yfirvöld út handtökuskipun á hendur manninum til fullnustu fangelsisrefsingar sem honum hafði verið gerð með tveimur dómum.
Fyrri dómurinn var kveðinn upp í janúar 2005 þar sem maðurinn var sakfelldur fyrir þjófnað og dæmdur í átta mánaða fangelsi. Seinni dómurinn var kveðinn upp rúmum mánuði seinna, eða 21. febrúar 2005, var hann jafnframt sakfelldur fyrir þjófnað með þeim dómi, en fangelsisvistin öllu lengri, eða til tveggja ára.
Í kjölfar beiðninnar um afhendingu mannsins gaf ríkissaksóknari fyrirmæli um handtöku. Var maðurinn handtekinn 8. nóvember 2023 og gaf hann skýrslu á lögreglustöðinni daginn eftir. Kvaðst hann vera sá sem málið varðaði og kannaðist hann við málsatvik.
Hann hafnaði hins vegar að láta afhenda sig til Póllands og hefur síðan þá sætt farbanni. Þann 15. nóvember tók ríkissaksóknari ákvörðun um afhendingu mannsins til Póllands og daginn eftir fór maðurinn fram á að ákvörðunin yrði borin undir héraðsdóm, sem síðan staðfesti ákvörðun ríkissaksóknara.
Maðurinn sagðist aldrei hafa komið við sögu lögreglu á Íslandi og aldrei brotið neitt af sér hér. Þá sagðist hann telja afhendingu til Póllands brjóta gegn mannréttindum sínum þar sem í afhendingunni fælist ferlissvipting og heimilisleysi fyrir hann, þar sem hann ætti engar eignir í Póllandi.