Reiknar með að ríkisstjórnin taki verkefnið mjög alvarlega

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist reikna með því að stjórnvöld eigi fund með breiðfylkingu stéttarfélaganna og Samtökum atvinnulífsins á morgun og í kjölfarið ættu málin að skýrast – í hvaða átt kjaraviðræðurnar fari.

„Við erum að fara áfram og það er það sem skiptir máli,“ sagði Ragnar Þór við mbl.is á milli funda í Karphúsinu í dag, spurður hvort það þokist áfram í samningaviðræðunum við Samtök atvinnulífsins.

Ragnar segir að um leið og stjórnvöld komi að samningaborðinu fari hlutir að skýrast um vinnuna fram undan, hvort hún fari á fullt í útfærslur og smáatriði eða hvort hún stöðvist eða breytist með einhverjum hætti. Hann reiknar með því að fulltrúar ríkisstjórnarinnar fundi með samningsaðilum á morgun og í framhaldinu verður fundað með sveitarfélögunum.

Ábyrgðarhluti að standa fyrir stöðugleika

„Það hlýtur að vera ábyrgðarhluti hjá sjálfri ríkisstjórninni að standa fyrir stöðugleika, ná niður verðbólgu og vöxtum. Það er meginhlutverk hennar á þessum tímapunkti og ef hún er ekki starfi sínu vaxin þá held ég að það blasi við að hún verði að fara frá. Ég reikna með að ríkisstjórnin taki þessu verkefni mjög alvarlega og jafn alvarlega og við,“ segir Ragnar Þór.

Boðaðar hafa verið verulegar gjaldskrárhækkanir hjá mörgum sveitarfélögum landsins sem og hjá fyrirtækjum og segir Ragnar ljóst að þær hækkanir þurfi að ganga til baka. Hann segir að það blasi við að það þurfi að setja þak á gjaldskrárhækkanir.

Horfa til lífskjarasamninganna

„Við erum ekki búin að koma okkur niður á einhverja ákveðna tölu en við erum að horfa til lífskjarasamninganna þar sem var alveg skýrt að hækkanir yrðu ekki meira en 2,5 prósent. Skilaboðin þurfa væntanlega að vera aðeins skýrari og við þurfum jafnvel að vera komin örlítið lengra til þess að sveitarfélögin og fyrirtækin sem hafa hækkað eða hafa boðað hækkanir dragi slíkt til baka,“ segir Ragnar.

Hann segir að ákallið frá verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnulífsins um að draga til baka verðhækkanir hafi komist rækilega til skila þótt engar beinar aðgerðir hafi komið til hjá sveitarfélögum eða fyrirtækjum varðandi verðlagsbreytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert