Segir Akureyri ekki vera með ruddalegar hækkanir

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir í samtali við mbl.is að það sé sjálfsagt mál að sveitarfélagið dragi til baka gjaldskrárhækkanir ef svokölluð þjóðarsátt næst í kjaraviðræðum.

Almenn gjaldskrárhækkun hjá Akureyrarbæ er að sögn Ásthildar um það bil 9% sem hún segir meðal annars vera vegna vaxandi launakostnaðar og verðbólgu.

„Mér finnst við nú ekkert vera ruddaleg í gjaldskrárhækkunum. Við erum að lækka leikskólagjöldin, sem er kannski stærsti liðurinn hjá fólki,“ segir hún og útskýrir að verið sé að taka upp nýtt kerfi er varðar innheimtu leikskólagjalda þar sem boðið verður upp á 6 klukkustundir gjaldfrjálsar sem ætlað er að koma frekar til móts við launalægri foreldra.

„Við erum allavega ekki að fara í svona miklar hækkanir á einstökum liðum eins og er í Reykjavíkurborg til dæmis.“.

Til í að draga til baka gjaldskrárhækkanir

Forystumenn í nýrri breiðfylkingu stéttarfélaga hafa kallað eftir því að sveitarfélög endurskoði gjaldskrárhækkanir sínar, sem eru mismiklar eftir sveitarfélögum. Ásthildur segir það skýrt að Akureyri er til í að draga til baka gjaldskrárhækkanir ef þjóðarsátt næst.

„Við erum búin að bóka um það nú þegar að við munum gera það,“ segir Ásthildur innt eftir viðbrögðum við ákalli stéttarfélaga.

„Við munum að sjálfsögðu taka þátt í því að lækka okkar gjaldskrár ef að það verður hluti af samkomulagi í gegnum kjarasamninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka