Segir málið byggt á misskilningi

mbl.is/Kristinn Magnússon

Félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd gerði athugasemdir við ummæli dómsmálaráðherra um fjölskyldusameiningar í tengslum við kröfu hóps Palestínumanna um að íslensk yfirvöld sæki fjölskyldur þeirra til Gasa. Ráðherra segir málið byggt á misskilningi og ónákvæmu orðalagi. 

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi á föstudag í síðustu viku „ekkert ríki Norðurlandanna í fjölskyldusameiningum“ og kvaðst tala fyrir því að unnið yrði með sambærilegum hætti hér á landi. 

Ónákvæmt orðalag ráðherra

Ummælin hafa sætt nokkurri gagnrýni og margir sem hafa farið fram á að ráðherra leiðrétti orð sín. Ráðherra segir málið byggt á misskilningi, hún hafi ekki verið að tala um „rétt til fjölskyldusameiningar“ sem byggist á lögum, heldur hvort yfirvöld séu með virkum hætti að sækja fjölskyldur inn á stríðshrjáð svæði á borð við Gasa á grundvelli þeirra réttinda.

„Mér er bæði ljúft og skylt að leiðrétta þann misskilning sem varð vegna þess að orðalag mitt í viðtali við mbl.is var ónákvæmt. Bæði Ísland og önnur Norðurlönd veita almennt heimild til fjölskyldusameiningar. Það veitir aðstandendum flóttamanna leyfi til að koma til Íslands og dvelja hér,“ segir hún og útskýrir:

„Slíku leyfi fylgir hins vegar ekki skylda íslenskra stjórnvalda til að sækja þá aðila til Gasa. Með því væru íslensk stjórnvöld að leggja í leiðangur sem ekkert annað nágrannaríkja okkar hefur lagt í. Ummæli mín áttu við um aðgerðir af þeim toga, ekki almennt um leyfi til fjölskyldusameiningar sem eru réttindi sem byggjast á lögum um útlendinga.“

Norðurlöndin fyrst og fremst að aðstoða eigin ríkisborgara

Því næst bætir hún við að íslensk stjórnvöld leggi áherslu á að horfa til framkvæmdar nágannaþjóða sinna. Sem dæmi hafi Norðurlöndin fyrst og fremst aðstoðað eigin ríkisborgara og fjölskyldur þeirra. 

„Ef íslensk stjórnvöld ákveða að fara aðra leið væri því um að ræða „séríslenska framkvæmd,” segir Guðrún og vitnar í fyrri frétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert