Sjái sóma sinn í að draga verðhækkanir til baka

Fundur verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. Sólveig Anna Jónsdóttir …
Fundur verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. Sólveig Anna Jónsdóttir fyrir miðju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að samningaviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins þokist hratt og örugglega áfram. Hún bindur vonir við að boðaðar verðhækkanir á gjaldskrám verði dregnar til baka.

Breiðfylking stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði og Samtök atvinnulífsins funduðu annan daginn í röð í Karphúsinu í dag. Á morgun er stefnt að því að stjórnvöld setjist við samningaborðið.

Beðið er eftir aðkomu ríkisins og sveitarfélaga og segir Sólveig Anna mjög mikilvægt að þeir aðilar komi með skýr skilaboð og séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum svo samningar náist.

Aðgerðir ríkisins og sveitarfélaga skipta sköpum

„Við bíðum eftir aðgerðum stjórnvalda og sveitarfélaga. Þau skipta sköpum. Það er öllum ljóst á þessum tímapunkti út á hvað þetta gengur. Þetta gengur út á það að allir komi að borðinu og við finnum farsæla og góða lausn sem allir geta unað sáttir við,“ sagði Sólveig Anna við mbl.is í Karphúsinu í dag.

Mörg sveitarfélög hafa kynnt áform um verulegar gjaldskrárhækkanir á þessu ári og um áramótin hækkaði til að mynda Strætó fargjöld um 11 prósent, Sorpa hækkaði gjaldskrá að meðaltali um 12 prósent og raforka hjá Orku náttúrunnar hækkaði um 8,5 prósent.

„Það veldur mér auðvitað vonbrigðum að fólk skuli ekki geta gert nákvæmlega það sem við biðjum um. Ég er samt jarðtengd og á þessum tímapunkti hef ég fulla trú á því að gangi þetta upp sem við erum að leggja upp með þá muni fólk einfaldlega sjá sóma sinn í því að draga þær hækkanir til baka sem hafa verið boðaðar,“ segir Sólveig Anna.

Bjartsýnni en áður á þessum tímapunkti

Sólveig segir að stjórnvöld þurfi að koma með verkalýðshreyfingunni í þá vegferð að laga tilfærslukerfin þannig að hægt sé að segja að fólk búi í norrænu velferðarkerfi þar sem hagsmunir fjölskyldna og barnafólks séu settir í fyrirrúm.

Hversu bjartsýn ert þú á að hægt verði að landa kjarasamningi innan tíðar?

„Á þessum tímapunkti er ég bjartsýnni en ég hef nokkrum sinnum verið svona snemma í samningsviðræðum,“ segir Sólveig Anna.

Spurð hvers vegna gangi betur í viðræðum við Samtök atvinnulífsins nú en oftast áður segir Sólveig:

„Þetta er ágæt spurning. Ég held til dæmis að það gangi svona vel vegna þess að þetta tímamóta bandalag sem myndaðist á vettvangi Alþýðusambandsins og að þessi risastóri hópur með fulltrúa fólks með ólíka hagsmuni náði saman og ákvað að einblína ekki á það sem skilur okkur að heldur finna það sem við getum sameinast um.

Það tók langan tíma að koma þessu saman en það tókst og ég held að það sé lykillinn að því hversu vel þetta er að ganga núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert