Sjái sóma sinn í að draga verðhækkanir til baka

Fundur verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. Sólveig Anna Jónsdóttir …
Fundur verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. Sólveig Anna Jónsdóttir fyrir miðju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, seg­ir að samn­ingaviðræðurn­ar við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins þok­ist hratt og ör­ugg­lega áfram. Hún bind­ur von­ir við að boðaðar verðhækk­an­ir á gjald­skrám verði dregn­ar til baka.

Breiðfylk­ing stétt­ar­fé­laga á al­menn­um vinnu­markaði og Sam­tök at­vinnu­lífs­ins funduðu ann­an dag­inn í röð í Karp­hús­inu í dag. Á morg­un er stefnt að því að stjórn­völd setj­ist við samn­inga­borðið.

Beðið er eft­ir aðkomu rík­is­ins og sveit­ar­fé­laga og seg­ir Sól­veig Anna mjög mik­il­vægt að þeir aðilar komi með skýr skila­boð og séu til­bún­ir til að leggja sitt af mörk­um svo samn­ing­ar ná­ist.

Aðgerðir rík­is­ins og sveit­ar­fé­laga skipta sköp­um

„Við bíðum eft­ir aðgerðum stjórn­valda og sveit­ar­fé­laga. Þau skipta sköp­um. Það er öll­um ljóst á þess­um tíma­punkti út á hvað þetta geng­ur. Þetta geng­ur út á það að all­ir komi að borðinu og við finn­um far­sæla og góða lausn sem all­ir geta unað sátt­ir við,“ sagði Sól­veig Anna við mbl.is í Karp­hús­inu í dag.

Mörg sveit­ar­fé­lög hafa kynnt áform um veru­leg­ar gjald­skrár­hækk­an­ir á þessu ári og um ára­mót­in hækkaði til að mynda Strætó far­gjöld um 11 pró­sent, Sorpa hækkaði gjald­skrá að meðaltali um 12 pró­sent og raf­orka hjá Orku nátt­úr­unn­ar hækkaði um 8,5 pró­sent.

„Það veld­ur mér auðvitað von­brigðum að fólk skuli ekki geta gert ná­kvæm­lega það sem við biðjum um. Ég er samt jarðtengd og á þess­um tíma­punkti hef ég fulla trú á því að gangi þetta upp sem við erum að leggja upp með þá muni fólk ein­fald­lega sjá sóma sinn í því að draga þær hækk­an­ir til baka sem hafa verið boðaðar,“ seg­ir Sól­veig Anna.

Bjart­sýnni en áður á þess­um tíma­punkti

Sól­veig seg­ir að stjórn­völd þurfi að koma með verka­lýðshreyf­ing­unni í þá veg­ferð að laga til­færslu­kerf­in þannig að hægt sé að segja að fólk búi í nor­rænu vel­ferðar­kerfi þar sem hags­mun­ir fjöl­skyldna og barna­fólks séu sett­ir í fyr­ir­rúm.

Hversu bjart­sýn ert þú á að hægt verði að landa kjara­samn­ingi inn­an tíðar?

„Á þess­um tíma­punkti er ég bjart­sýnni en ég hef nokkr­um sinn­um verið svona snemma í samn­ingsviðræðum,“ seg­ir Sól­veig Anna.

Spurð hvers vegna gangi bet­ur í viðræðum við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins nú en oft­ast áður seg­ir Sól­veig:

„Þetta er ágæt spurn­ing. Ég held til dæm­is að það gangi svona vel vegna þess að þetta tíma­móta banda­lag sem myndaðist á vett­vangi Alþýðusam­bands­ins og að þessi risa­stóri hóp­ur með full­trúa fólks með ólíka hags­muni náði sam­an og ákvað að ein­blína ekki á það sem skil­ur okk­ur að held­ur finna það sem við get­um sam­ein­ast um.

Það tók lang­an tíma að koma þessu sam­an en það tókst og ég held að það sé lyk­ill­inn að því hversu vel þetta er að ganga núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert