Útilokar ekki að draga hækkanir til baka

Almenn gjaldskrárhækkun Seltjarnarnesbæjar á árinu er 9,9% og er með …
Almenn gjaldskrárhækkun Seltjarnarnesbæjar á árinu er 9,9% og er með þeim hæstu á landinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, útilokar ekki að draga til baka gjaldskrárhækkanir sveitarfélagsins ef það næst að semja um þjóðarsátt í kjaraviðræðum nýs bandalags stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Almenn gjaldskrárhækkun Seltjarnarnesbæjar á árinu er 9,9% og er með þeim hæstu á landinu, að er Vísir greinir frá. Þór Sigurgeirsson segir þetta útskýrast af nokkrum þáttum og ekki síst þeim að launavísitala sé rúmlega 11%. Þar að auki séu öll aðföng og almenn þjónusta orðin töluvert dýrari fyrir sveitarfélagið.

„Það eru nokkur sveitarfélög sem státa sig af því að vera með lága gjaldskrárhækkun núna en hafa jafnframt hækkað kannski þrisvar til fjórum sinnum yfir árið. Þannig þetta lítur kannski illa út í samanburði við þau,“ segir Þór og kveðst meðal annars vera að vísa til Reykjavíkurborgar.

Til í að taka þátt í þjóðarsátt

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann teldi að fjár­hags­áætlan­ir sveit­ar­fé­laga hafi gert ráð fyr­ir mun meiri launa­hækk­un­um held­ur en verka­lýðshreyf­ing­in sé nú að biðja um og því ætti það að veita sveit­ar­fé­lög­um smá svig­rúm. Þór vonar að það sé rétt.

„Ég bara vona það svo innilega. Ef að við getum verið þátttakendur í þessu þá gerum við það að sjálfsögðu því að lægri verðbólga fyrir okkur er miklu meira virði en gjaldskrárhækkanir,“ segir Þór.

Vilhjálmur kallaði enn fremur eftir því að sveitarfélög setji 2,5% þak á gjaldskrárhækkanir til að allir taki þátt í þessari þjóðarsátt sem verið er að reyna járna saman. Þór segir að gjaldskrárhækkanirnar séu þegar búnar að taka gildi en útilokar ekki að bæjarstjórn komi saman þegar samningar liggi fyrir og lækki mögulega einhver gjöld.

„Þessi ósk kom bara í raun allt of seint og þar af leiðandi tók þetta gildi. Bæjarráð og bæjarstjórn taka svo bara afstöðu til þess þegar það hittist í næstu viku, hvað við gerum í raun,“ segir Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert