Einar og Björg saman á ný

Björg Magnúsdóttir hefur meðal annars verið annar umsjónarmanna Kappsmáls.
Björg Magnúsdóttir hefur meðal annars verið annar umsjónarmanna Kappsmáls. Kristinn Magnússon

Björg Magnúsdóttir hefur verið ráðin sem aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar verðandi borgarstjóra. Björg hefur verið starfsmaður hjá Ríkisútvarpinu undanfarin 12 ár en söðlar nú um og fer í Ráðhúsið. 

Björg segir að eftir langan tíma á RÚV sé kominn tími á breytingar og nýjar og stórar áskoranir. 

„Síðasta ár hef ég verið í fæðingarorlofi með drenginn minn. Í fæðingarorlofi þrengist fókusinn í lífinu og nærumhverfið fer að skipta meira máli. Hvert kemst ég í göngutúr með vagninn eftir snjókomu síðustu daga? Er ástandið á íbúðamarkaði að skána eða verður barnið mitt heima til fertugs?

Eins og aðrir foreldrar hef ég líka þurft fyrir alvöru að velta daggæslu- og leikskólamálum fyrir mér og finn hversu ósegjanlega mikilvægt er að þau séu í lagi. Bið eftir plássi getur reynt verulega á - og enn er það þannig að mæður finna meira fyrir því. Að fá tækifæri til þess að starfa að þessum málaflokkum og vonandi gera gagn finnst mér heiður og ég hlakka mikið til,“ segir Björg. 

Á skóflunni fyrir borgarbúa 

Hún og Einar þekkjast frá fyrri tíð þar sem þau voru samstarfsfélagar á RÚV. 

„Ég hef unnið með Einari í mörg ár og kynnst honum vel. Rætt við hann um heima og geima og hlegið mikið. Bæði með honum og örsjaldan að honum og eilífum metnaði hans fyrir að sjá kómísku hliðarnar í lífinu. Hann er góður maður og ég skýt á að hann verði mjög góður borgarstjóri.

Ég hef trú á því sem hann hefur verið að gera og setur stefnuna á að gera í góðu meirihlutasamstarfi. Hófsöm nálgun af miðjunni með skýra forgangsröðun finnst mér skynsamleg. En líka, við þurfum fleira venjulegt, málefnalegt og skemmtilegt fólk í stjórnmálin sem ætlar að vera á skóflunni fyrir borgarbúa. Það er góð pólitík,“ segir Björg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert