Eldgos er enn talið langlíklegast við Sundhnúkagígaröðina, milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þetta kemur fram í nýju hættumatskorti Veðurstofu Íslands.
Aðalbreytingin frá síðasta hættumatskorti er á svæði 1, eða Svartsengi, þar sem nú er talin vera „nokkur hætta“, sem er minni hætta en á síðasta hættumatskorti.
Ástæðan fyrir breytingunni er sú að hætta vegna myndunnar á stórum sprungum á yfirborði er talinn minni þar sem engar nýjar slíkar sprungur hafa myndast að undanförnu.
„Auk þess sem samtúlkun vísindafólks á vöktunargögnum á samráðsfundi Veðurstofunnar, bendir til þess að Sundhnúkagígaröðin, milli Stóra-Skógfells og Hagafells, sé lang líklegasta upptakasvæði eldgoss,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Veðurstofan sagði fyrr í dag að vísbendingar væru um að kvikuþrýstingur væri að byggjast upp við Svartsengi og þar með ykjust líkur á nýju kvikhlaupi og einnig eldgosi. Ekki væri útilokað að það væri vísbending um að það dragi úr kvikuinnflæði
Síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið allan sólarhringinn og er í beinu sambandi við almannavarnir um stöðu mála.