Landrisið heldur áfram og aldrei verið meira

Fyrst og fremst er nú fylgst með þróun mála við …
Fyrst og fremst er nú fylgst með þróun mála við Svartsengi. mbl.is/Eyþór Árnason

Nýtt hættumat fyrir Svartsengi og Grindavík verður að líkindum gefið út í dag.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlis­fræðingur og fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands, á ekki von á stórum breytingum þó mögulegt sé að þær verði einhverjar.

Segir Benedikt í samtali við mbl.is að það eigi eftir að leggja lokahönd á matið áður en það verður gefið út. Þá vill hann ítreka að um hættumat sé að ræða en ekki áhættumat.

Engin aflögun í kringum Trölladyngju

„Ég hef tekið eftir því að menn hafa verið að rugla þessu pínulítið saman og hafa talað um að taka varnargarða inn í þetta og áhrifin sem þeir hafa. Það er gert í áhættumati en ekki hættumati.“

Sérfræðingar funduðu í morgun og segir Benedikt að fyrst og fremst sé verið að fylgjast með þróuninni við Svartsengi. Farið var yfir virknina og aflögun og þá voru skjálftar skoðaðir.

„Virknin er mjög svipuð. Það fór svolítill tími í að skoða virknina í Trölladyngju og það er alveg skýrt held ég á öllum gögnum að þarna er um „triggeraða“ virkni að ræða. Það sem hrökk þarna er norður-suður sprunga sem hefur oft farið áður. Það hafa verið reglulegir skjálftaatburðir á þessari sprungu alla vega tvo áratugi aftur í tímann og líklega lengur,“ segir Benedikt og bætir við að eftirskjálftavirknin styrki þá trú sérfræðinga.

„Við sjáum enga aflögun kringum Trölladyngju eins og er.“

Líklegt að eldvirkni breiði úr sér um Reykjanesskagann

Spurður út í það hvort Reykjanesskaginn sé allur að vakna, og að við gætum farið að sjá eftir einhvern óákveðinn tíma að eldvirkni sé farin að færast ískyggilega nálægt byggð á höfuðborgarsvæðinu, segir Benedikt að hugsa þurfi um tímakvarða í því sambandi.

„Við erum ekki að tala um að það sé að fara að gerast eitthvað í Krýsuvíkurkerfinu á morgun en það er mjög líklegt að eldvirkni breiði úr sér um Reykjanesskagann á einhverju 100 eða 200 ára tímabili. Við getum þó ekkert sagt til um hvenær virkni hoppar til eða hvert hún fer, við sjáum bara hvað er í gangi núna.“

Spurður hvort atburðirnir í og við Grindavík tengist atburðunum í Trölladyngju segir Benedikt erfitt að segja til um það. Segir hann atburðina nærri Grindavík hafa áhrif á öllum Reykjanesskaganum og að þeir geti ýtt svæðum sem séu nálægt því að brotna yfir mörk og þá verði skjálftar.

„Það er einhvern víxlverkun þarna á milli, sem við kannski skiljum ekkert nákvæmlega, en hún er ekki þannig að það sé kvika komin undir Trölladyngju. Það getur breyst einhvern tímann en á ekki við eins og er.“

Ekki náð því magni sem flæddi út

Landris við Svartsengi er komið upp fyrir þau mörk sem það var fyrir síðasta gos en Benedikt segir aftur á móti að matið á rúmmálinu sé þannig að það sem hafi flætt inn eftir gosið sé ekki búið að ná því kvikumagni sem flæddi út 18. desember.

„Það vantar alla vega einn þriðja upp á það.“

Segir hann landris enn töluvert og mjög mikið ennþá þó það fari minnkandi. Það hafi í raun ekkert stoppað, ekki einu sinni á meðan gosið stóð yfir fyrir jól.

Játar hann því að það þýði í raun að það komi meira inn í kerfið heldur en var að flæða út úr því í gosinu fyrir jól. Tekur hann þó fram að nákvæmni slíkra vangavelta sé ekki mikil og bendir á að tillit þurfi að taka til samþjappanleika kviku sem sé í raun ómögulegt.

Benedikt segir að landrisið hafi náð mismikilli hæð eftir stöðvum. Landris á GPS-stöðinni við Svartsengi sýnir að staða lands hafi aldrei verið hærri þar. Á stöð sem er rétt aðeins vestar hefur það þó ekki náð þeim mörkum.

„Við höfum séð að það er hægt og rólega að hægja á þessu og mögulega þýðir það að þetta sé að nálgast einhver krítísk mörk. Það getur auðvitað líka þýtt að það sé að stöðvast og engin leið að segja hvort er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert