Vísbendingar eru um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp við Svartsengi og þar með aukast líkur á nýju kvikhlaupi og einnig eldgosi. Uppfært hættumatskort verður birt seinna í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Í tilkynningunni segir jafnframt að ekki sé útilokað að þetta sé vísbending um að það dragi úr kvikuinnflæði. Áfram dregur úr hraðanum á landrisinu við Svartsengi en það var staðfest með GPS-gögnum sem voru til umræðu á samráðsfundi vísindafólks á vegum Veðurstofu Íslands í morgun.
Tæplega 490 skjálftar hafa átt sér stað við kvikuganginn frá því á þriðjudag og þar af 14 yfir 1,0 að stærð. Stærsti skjálftinn á þessu tímabili mældist 1,8 að stærð norður af Hagafelli.
Á miðvikudag riðu yfir skjálftar sem mældust 4,3 að stærð annars vegar og 3,5 að stærð hins vegar nærri Trölladyngju. Fjölmargir eftirskjálftar fylgdu og hafa um 900 skjálftar mælst á svæðinu.
Jarðskjálftarnir við Trölladyngju urðu á þekktri jarðskjálftasprungu þar sem stærri skjálftar hafa orðið nokkrum sinnum áður. Engin merki eru um að þeir tengist kvikuhreyfingum beint, eins og segir í tilkynningunni.
Þær miklu landbreytingar sem hafa orðið á Reykjanesi í tengslum við kvikugangana í Fagradalsfjalli, landris við Svartsengi, kvikuganginn við Sundhnúk í nóvember og eldgosið skömmu fyrir jól hafa mælst á öllu vestanverðu Reykjanesinu og hafa áhrif á skjálftavirkni á svæðinu öllu.
Þá segir í tilkynningunni að mat vísindamanna sé áfram að ef til eldgoss komi, sé líklegast að það gjósi aftur á Sundhnúkagígaröðinni á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.
„Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum,“ eins og segir í tilkynningu Veðurstofu.