Ljónunum á veginum fer fækkandi

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var virkilega góður og jákvæður fundur þótt ég geri mér alveg grein fyrir því að nú þurfa stjórnvöld að fara yfir þessi atriði sem við vorum að kynna fyrir þeim.“

Þetta sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, við mbl.is eftir fund forystumanna í breiðfylkingu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði með fimm ráðherrum ríkistjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í dag.

Síðustu daga hefur áðurnefnd breiðfylking átt fundi með Samtökum atvinnulífsins þar sem hefur verið góður gangur í viðræðum samningsaðila um gerð nýs kjarasamnings, en nú er boltinn hjá stjórnvöldum þar sem kallað hefur verið eftir útspili þeirra til að hægt verði að landa langtímasamningi.

Finn mikinn vilja hjá stjórnvöldum

„Ég finn mikinn vilja hjá stjórnvöldum til að taka þátt í þessu verkefni og koma að þessu borði. Það eru allir sammála um mikilvægi þess að ná niður verðbólgu og vöxtum og fundurinn var mjög jákvæður,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir að stjórnvöld hafi tekið vel í kröfugerð breiðfylkingarinnar, sem fer með samningsumboð um 93% launafólks innan Alþýðusambandsins, en kallað hefur verið eftir því að stjórnvöld auki útgjöld sín til barna-, húsa- og vaxtabóta um 20-25 milljarða króna.

„Mér fannst þau taka nokkuð vel í þetta, en ég geri mér samt alveg grein fyrir því að það er kannski áherslumunur hvernig eigi að nálgast verkefnið. Þau vilja eðlilega skoða það og við ætlum að bíða og leyfa þeim að greina stöðuna,“ segir Vilhjálmur.

Leyfir sér að vera bjartsýnn

Hann segist finna fyrir vilja hjá sveitarfélögunum að endurskoða boðaðar gjaldskrárhækkanir og að myndast séu sterkir og góðir straumar gagnvart því að það takist að komast í mark í þessu verkefni.

„Ég ætla að leyfa mér það að vera bjartsýnn þar til annað kemur í ljós. Ljónunum á veginum fer fækkandi þótt þau séu vissulega til staðar,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert