Merki um að eldstöðin í Grímsvötnum sé tilbúin

Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, jarðeðlis­fræðing­ur og fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands, segir að sérfræðingar hafi átt von á því að Grímsvötn gjósi í nokkurn tíma. Segir hann að eldstöðin hafi sýnt merki um að hún sé tilbúin en hafi látið bíða eftir sér.

Segir Benedikt í samtali við mbl.is að landris sé stöðugt þar og það hafi ekki sést breytingar á landrisi rétt fyrir gos en að skýr merki sjáist þegar gos fer í gang en þá verði landsig.

Hafa beðið eftir Grímsvötnum

Hann segir að eldstöðin hafi fyrir tveimur árum verið farin að nálgast þá stöðu sem hún var í fyrir síðasta gos 2011.

„Svo hefur ýmislegt gerst í millitíðinni sem hefur haft mjög mikil áhrif, fyrst og fremst eldgosið í Holuhrauni 2014. Sá atburður hafði mjög mikil áhrif á Grímsvötn og við vitum í sjálfu sér ekki nákvæmlega hvað það þýðir og hvort það tefur fyrir að það gjósi þar eða hvernig áhrif það hefur haft á eldstöðina.“

Sjá fyrir gos en með stuttum fyrirvara

Spurður út í fyrirvara segir hann langtímafyrirvara hafa nú þegar sýnt sig í hægt vaxandi skjálftavirkni en segir það geta verið merki um mánuði eða misseri í gos. Hvað skammtímafyrirvara varðar segir hann þá ekki mjög langa.

„Hann er kannski bara einn og hálfur tími eða kannski aðeins lengur en menn voru alveg tilbúnir fyrir síðasta gos og nokkuð vissir um að það væri gos að fara af stað áður en það sást á yfirborði. Það voru mjög skýr merki svona einum og hálfum tíma áður en það byrjaði að gjósa að kvika væri á leiðinni til yfirborðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert