Segir stjórnvöld munu koma að kjaraviðræðum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vitum það að hingað til og líka núna munu stjórnvöld koma að með einhverjum hætti,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra, spurð um aðkomu stjórnvalda í kjaraviðræðum.

Breiðfylking verkalýðsfélaga átti í dag fund með Samtökum atvinnulífsins og ríkisstjórninni þar sem farið var yfir kröfur þeirra gagnvart ríkinu.

Þórdís ræddi við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun fyrir fundinn. 

Hvort með sinn tekjustofn 

Kemur til greina að aðstoða sveitarfélögin sem segjast illa stödd fjárhagslega þannig að þau geti komið frekar til móts við kröfur í kjaraviðræðum?

„Þetta er heilmikið púsl og það er aðila vinnumarkaðarins að semja. Við vitum að við munum koma með einhverjum hætti að því. En á þessum tímapunkti er ekkert frekar um það að segja. Ríkið hefur sína tekjustofna og sömuleiðis sveitarfélögin," segir Þórdís Kolbrún.

Spurð hvort að fjármálaáætlun muni taka mið af þeim kjaraviðræðum sem eru í gangi þá segir Kolbrún mikilverðasta verkefnið að ná verðbólgu niður. Til þess þurfa ríkisfjármálin að vera ábyrg.

Langmesta kjarabótin snýr að verðbólgu 

„Allar nýjar kröfur og ný útgjöld hafa ákveðin áhrif. Það eru mismunandi leiðir til að mæta þeim og það verður rætt við ríkisstjórnarborðið. Þá með það til hliðsjónar með hvaða hætti verkalýðsfélögin geta stillt sig af sé tekið mið af þeirra markmiðum. Ef það hefst þá vonast ég til þess að við getum leyst úr því,“ segir Þórdís Kolbrún.

Ný fjármálaáætlun verður lögð fram í vor og segir Þórdís að hún geti tekið breytingum ef efni standa til.

„Markmiðin eru skýr og þau verða að vera það bæði í orði og á borði. Verkefnið er að stemma þetta allt saman af þannig við getum öll sagt, og meint það, að við viljum ábyrga langtíma samninga. Og að við séum öll að ganga í takt við að ná verðbólgu og vöxtum niður. Það er langmesta kjarabótin fyrir okkur sem búum í þessu landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert